Baráttuandi láglaunafólks hefur hleypt nýju lífi í verkalýðshreyfinguna

Þegar ég geng upp göngustíginn að parhúsinu í Grímshaganum tekur á móti mér loðinn vinur, Móa, hundur heimilisins sem ýlfrar og geltir til skiptis til að fagna gestkomunni. Ásamt Móu tekur á móti mér Ögmundur Jónasson fyrrum formaður BSRB, þingmaður og ráðherra. Hann segist vera afi Móu og sé hún í tímabundnu fóstri. Þegar inn í húsið er komið, er léttur píanóleikur í græjunum og við setjumst við eldhúsborðið. Móa vill vera með og leggst við borðið og vill taka þátt í viðtalinu. Í eldhúsinu er klukka sem tikkar líkt og í Brekkukoti, eilíbbð, eilíbbð, þó með hógværari hætti og áhugaverður er lampaskermur í eldhúsinu en hann er í reynd derhúfa merkt Bernie Sanders, þingmanni og forsetaframbjóðanda í Bandaríkjunum.

Þetta viðtal var hluti af BA ritgerð minni í stjórnmálafræði þar sem fjallað var um hvort samráðskerfi væri að aukast á kostnað átaka á Íslenskum vinnumarkaði. Í ritgerðinni var birt viðtal við tvo fyrrum formenn stéttarfélaga ásamt annarri umfjöllun en fyrir tveimur vikum síðan var eins og þetta, lengd útgáfa af viðtalinu við Björn Grétar Sveinsson, fyrrum formann Verkalýðsfélagsins Jökuls á Höfn í Hornafirði og Verkamannasambands Íslands.

Ögmundur byrjaði sem áhugamaður um verkalýðsmál um leið og hann tók til starfa á fréttastofu Ríkisútvarpsins en hafði þó alltaf horft til mikilvægra starfa verkalýðshreyfingarinnar. Hann hóf störf á Ríkisútvarpinu 1978 og var orðinn formaður Starfsmannafélags Sjónvarpsins 1981 og var það lengst af til ársins 1988 en áður hafði hann verið við nám og störf í Edinborgarháskóla ásamt því að stunda um skeið kennslu við Grunnskóla Reykjavíkur. Á þessum árum og síðar hefur Ögmundur verið stundakennari í sagnfræði við Háskóla Íslands. Árið 1988 var hann svo kjörinn formaður BSRB, Bandalags starfsmanna ríkis og bæja, en árið 1995 var hann kjörinn á þing fyrir Alþýðubandalag og óháða og var hann þingmaður til 2016, frá 1999 fyrir Vinstrihreyfinguna grænt framboð. Ögmundur var ráðherra í nokkrum ráðuneytum á árunum 2009-2013.

Aldrei megi stíga gegn frumkvæði fólks innan verkalýðshreyfingarinnar

„Hún skiptir öllu máli“ segir Ögmundur þegar hann er spurður út í mikilvægi þátttöku almennra félagsmanna innan verkalýðshreyfingarinnar. „Þátttaka almennra og helst allra félagsmanna skiptir öllu máli að mínu mati og það má aldrei stíga gegn frumkvæði fólks svo fast að það fái ekki notið sín innan hreyfingarinnar.“ Hann segir sína reynslu af störfum sínum innan hreyfingarinnar hafa sýnt að áhugi á verklýðsbaráttunni hafi verið mjög almennur og hafi í ofanálag alltaf aukist þegar til átaka kom á vinnumarkaði. Honum er minnisstætt verkfall BSRB 1984 en í aðdraganda þess hafi margir komið að til að knýja á um kjarabætur og verkföll ef samningaviðræður skiluðu engu. Á þeim tíma var óðaverðbólga og nýlega hafði launavísitalan verið numin úr gildi en ekki lánskjaravísitalan þannig að misræmið í þróun á verðlagi og launum bitnaði einnig á lántakendum sem voru að afla sér húsnæðis. „Allt kallaði þetta á mikla vakningu og án hennar hefði ekkert gerst. Og þetta var mjög almennt innan allrar hreyfingarinnar.“ Honum er einnig minnisstætt frá árinu 1996 þegar fram kom frumvarp í ríkisstjórn þess tíma sem hefði haft í för með sér talsverðar breytingar á vinnulöggjöfinni ásamt breytingum á réttindum og skyldum opinberra starfsmanna og víðtækar breytingar á rammalöggjöf um lífeyrissjóðina en einnig breytingar á lífeyrissjóðum opinberra starfsmanna sem hefðu leitt til verulegrar tekjuskerðingar fyrir vinnandi fólk á opinbera markaðnum að afloknum vinnudegi. „Það var fyrir vakandi áhuga félagsmanna að það tókst að hrinda verstu skerðingunum út af borðinu með almennri baráttu. Þannig að baráttuviljinn var fyrir hendi á þessum árum sem ég þekki til. Við sáum þessa árás sem gera átti á lífeyrissjóðskerfið og það sem við gerðum var að fara í öll aðildarfélög BSRB og efndum til funda um lífeyrismál til þess að innan allra aðildarfélaga bandalagsins væri fólk sem þekkti til þessara mála. Þannig að þegar á þyrfti að halda og á reyndi þá væri til staðar hópur af fólki sem gat gripið til vopna ef svo má að orði komast. Með því að næra jarðveginn með þessum hætti var hægt að hrinda atlögunni.“ 


Hann tekur fleiri dæmi um fjöldabaráttu sem skilaði árangri. Þegar hægt var að sjá fram á einkavæðingu innan almannaþjónustunnar þá hafi Ögmundur og hans félagar innan BSRB gert það sama og gagnvart atlögunni að lífeyrissjóðakerfinu. BSRB sendi hóp af fólki erlendis á fundi og ráðstefnur og efndi til námskeiða fyrir fólk til að verða öruggara í erlendum tungumálum. Oft hafi fjöldi fólks verið á fundum erlendis, til dæmis hjá Evrópusamtökum verkalýðshreyfingarinnar en einnig hafi fólk verið sent um langan veg, meira að segja alla leið til Nýja Sjálands til þess að skoða málefni tengd einkavæðingu í velferðarkerfinu þar en á þessum tíma var talað um Nýja Sjáland sem tilraunastofu í markaðsvæðingu. Samtökin buðu einnig fyrirlesurum til Íslands og efndu til funda, meðal annars um reynsluna af einkavæðingu símafyrirtækja og vatnsveitna og fyrirlesarar voru fengnir til landsins til að greina frá því hvernig markaðsvæðing og slökun á regluverki hefði leikið rafmagnsveitur í Bandaríkjunum. „Þannig að við vorum alltaf að reyna að búa til þennan lifandi umræðuvettvang fyrir fólk, ekki bara fyrir þrjá, fjóra menn heldur fyrir fjöldann allan af fólki. Og í þeim tilvikum sem það tókst, þar kviknaði líf. Og fyrir bragðið varð erfiðara fyrir stjórnvöld að knýja fram einhliða breytingar.“

Verkalýðshreyfingin hafi þannig haft áhrif og á hana hafi verið hlustað þegar það var vitað að hún byggði á félagslegum styrk, að raunverulegt afl væri á bak við hana. Þetta hafi skilað sér í gegnum kjarasamninga en líka haft óbein áhrif á stjórnvöld sem hafi viljað tryggja frið á vinnumarkaði. Það sem stjórnvöld hefðu vitað var að hefðu þau ekki vissa þætti í lagi þá væri erfitt að tryggja almennan frið á vinnumarkaði.

„Nú svo má ekki gleyma því að ef ekki hefði verið fyrir baráttu verkalýðshreyfingarinnar, sérstaklega BSRB, sem lét sig einkavæðingu og markaðsvæðingu félagslegra innviða meira varða en önnur félög í hreyfingunni þá hefði margt orðið á annan veg; með öðrum orðum hefði það ekki verið fyrir okkar baráttu þá hefði verið gengið miklu lengra í einkavæðingu og niðurifi á félagslegum þáttum en varð raunin. Ég leyfi mér að fullyrða að við höfðum gríðarleg áhrif á hinu pólitíska sviði að þessu leyti,” segir Ögmundur og tekur einnig fram að ef BSRB hefði ekki vakið máls á því sem varðaði alþjóðlega viðskiptasamninga, til dæmis á vegum World Trade Organziation þá hefði Ísland verið komið enn lengra inn í þann vef sem heimsauðvaldið óf linnulaust og vefur enn. „Það er sama hvert þú lítur, húsnæðismál, heilbrigðiskerfið, lífeyrismál. Ef við hefðum ekki verið til staðar þá hefði þjóðfélagið litið enn verr út en það þó gerir.“

„Það eru fleiri menn en yfirmenn“

Áhrif aðgerða á borð við fjöldafundi eða verkföll birtist áþreifanlega á mörgum hæðum innan samfélagsins segir Ögmundur þear hann er spurður út í áhrif aðgerða verkalýðshreyfingarinnar. Þau birtist til dæmis á vinnustaðnum. Þar sem styrkur hreyfingarinnar er mikill hafi það áhrif á hvernig atvinnurekandinn komi fram við starfsfólkið. „Ég hef stundum tekið það sem dæmi að fyrir verkfall BSRB 1984 þá tíðkaðist það að skriftur væru sendar eftir kaffi fyrir yfirmenn sína. Það var ekki gert eftir verkfallið. Valdahlutföllin breyttust einfaldlega. Fólk áttaði sig á því að á vinnustaðnum væru fleiri menn en yfirmenn.“ Þegar launafólk sýni afl sitt með samstöðu sjái atvinnurekandinn að tillit þurfi að taka til fólks á jafnréttisgrundvelli. Þannig sé með aðgerðum hægt að breyta valdahlutföllunum á vinnustaðnum að mati Ögmundar. Atvinnurekandi sem situr frammi fyrir dauðri rollu þurfi ekkert að gera henni til geðs, það sé bara óþarfi. En viti hann að sá sem standi andspænis honum hafi mikinn fjölda fólks á bakvið sig sem láti málin sig varða og sé tilbúið í aðgerðir, náist ekki tilætlaður árangur, þá liggi það í hlutarins eðli að samningsstaða slíks samningamanns er miklu sterkari en þess sem hefur ekkert afl á bakvið sig. Þetta hafi svo áhrif á sjálfsmat hvers og eins, heildarinnar og alls samfélagsins. „Vegna þess að það þjóðfélag sem hefur ekki uppi viðnám gegn ranglæti er enn stéttskiptara þjóðfélag en það þjóðfélag sem byggir á lifandi baráttu,“ segir Ögmundur og vitnar í frænda sinn, Stefán Ögmundsson, prentara sem var spurður eftir langt verkfall bókagerðarmanna þar sem ekki náðist tilætlaður árangur um aukinn kaupmátt hvort það væru ekki vonbrigði: „Það kann að vera rétt að gengisfelling hafi rýrt ávinninginn en sjálfsvirðinguna höfðu þeir ekki af okkur,“ hafði Stefán þá svarað og er greinlegt að þetta svar var Ögmundi mjög að skapi. Honum hefur í gegnum árin verið tíðrætt um þennan frænda sinn sem hann hefur augljóslega borið mikla virðingu fyrir og horft til í störfum sínum innan verkalýðshreyfingarinnar.

Þegar kemur að samskiptum hreyfingarinnar við ríkisvaldið þá sé augljóst að fólk horfi ekki síður á það sem fer út úr veskinu en það sem kemur inn í það. Séu útgjöld, til dæmis til húsnæðismála komin út úr hófi þá liggi það í hlutarins eðli að aðgerðir ríkisins á því sviði, sem komi til móts við launafólk hafi áhrif við kjarasamningsborðið.

Ögmundur telur þó varasamt að alhæfa þegar hann er spurður hvort verkfall geti verið eina lausnin til að knýja fram kjarasamning sem talist gæti ásættanlegur fyrir launafólk. Það sem sé rétt á einum tíma geti verið rangt á öðrum og öfugt. „En ef aðstæður og ástandið hjá fólki er orðið ómögulegt við samningsborðið þá er ekkert um annað að ræða en að fara í verkfall. Þetta gerðist í aðdraganda verkfalls BSRB 1984, alveg tvímælalaust. Hrokinn var orðinn slíkur í stjórnvöldum að við áttum ekki annarra kosta völd en hefja verkfall. Af okkar hálfu var ekki í boði að leggja upp laupana. ”

Salek er handjárn

„Stundum, stundum ekki.“ segir Ögmundur aðspurður hvort árangursríkasta leið stéttarfélaga sé að framselja samningsumboð sitt til heildarsamtaka á borð við BSRB eða ASÍ. Með því að festa slíkt kerfi í sessi sé hins vegar verið að stofnanavæða samband atvinnurekenda og verkalýðshreyfingarinnar eins og tilraun var gerð með Salek en það samkomulag var byggt á fjórum stoðum. Innan slíks kerfis væri gerður samningur sem myndi rammast innan efnahagslegs svigrúms með hliðsjón af samkeppnisstöðu útflutningsgreina. Öll stéttarfélög þyrftu þá að gera kjarasamninga sem þyrftu að vera innan þessa efnahagslega svigrúms en með þessu telur Ögmundur að verið væri að pressa alla hreyfingu launafólks undir alræðisvald stofnunar en það gengi þvert á lýðræðislega kjarabaráttu. Í þriðja lagi væri taxtavinnuhópum að einhverju marki tryggð jöfn staða við markaðslaunahópa með tengingu við launaskrið á vinnumarkaði . Þetta telur Ögmundur góðra gjalda vert en segir að hægt sé að gera þetta utan Salek ramma eins og dæmin sanni frá fyrri tíð. Að lokum átti með Salek að styrkja valdsvið Embættis ríkissáttasemjara. „Hvað ertu þá kominn með þarna?“ spyr Ögmundur og svarar sinni eigin spurningu og segir að slíkt kerfi myndi nánast múra alla inn í vegginn. Það átti að hans mati enginn að geta hreyft sig ef hann væri ekki tilbúinn að undirselja sig forræði lítils hóps sem færi með völdin á vinnumarkaði. „Það er nákvæmlega þetta sem gerir mig fráhverfan slíku fyrirkomulagi. Alveg tvímælalaust. En ég væri því fylgjandi, á stundum, að semja sameiginlega en þá af fúsum og frjálsum vilja, alls ekki handjárnaður með þessum þætti.” Eins sé með Þjóðhagsráð, en sú nefnd hefur verið starfrækt síðan árið 2019 við undirritun hins svokallaða Lífskjarasamnings sem átti að halda áfram með vinnu grænbókarnefndar vinnumarkaðarins. Ögmundur hefur miklar efasemdir um ágæti þess í ljósi ætlunarverksins með Salek. „Ef við hverfum frá módeli sem byggt er á lýðræði og fjöldaþátttöku, ef við hverfum frá því módeli og látum fagmenn, sérfræðinga eina um hituna, þá ertu ekki lengur með lifandi verkalýðshreyfingu og þá ertu farinn að hverfa frá því fyrirkomulagi sem við vorum að ræða hér í upphafi,” segir Ögmundur sem vill klassíska kjarabaráttu þar sem hópar fólks, stundum einir á báti og stundum sameinaðir, krefjist kjarabóta, betri aðbúnaðar og svo framvegis í stað kerfislægs kjarasamningskerfis. Tilgangur með setu við kjarasamningsborðið eigi ekki einungis að snúast um að finna getu útflutningsgreina og greina samkeppnishæfni þeirra, heldur eigi seta við samningaborðið að snúast um að breyta hlutföllum í samfélaginu. „Þú vilt fá að vita hvernig það er að vera húsnæðislaus og veikur í þjóðfélagi sem er með yfirsprengdu húsnæðisverði og tilkostnaði í heilbrigðiskerfinu.“ Hann segir að þetta séu þeir þættir sem horfa eigi til við kjarasamningaborð og engin leið sé að skilja stöðu fólks nema með því að heyra í því fólki sjálfu sem þessir hlutir brenna á. Ef þaggað sé niður í fólkinu og allar ákvarðanir og skilgreiningar settar inn í herbergi hjá nokkrum sérfræðingum sem oftar en ekki búi við allt önnur og betri kjör en hinn almenni launamaður, hvað þá láglaunamaðurinn, þá fáist einfaldlega allt önnur svör en frá fólkinu sjálfu.

Þó ekki eigi að rótfesta sjálfkrafa kjarasamningsviðræður í anda Salek að mati Ögmundar þá segir hann að ekkert sé því til fyrirstöðu að grípa til víðtækra samninga ef svo beri undir. Sveigjanleiki hreyfingarinnar í þessum efnum styrki stöðu hennar. En með því að niðurnjörva alla samninga í anda fyrirbæris líkt og Saleks þá fáist engu eða litlu hnikað til. „Þegar þú ert kominn með svona ósveigjanlegt form, þá færðu engu verulegu breytt. Það þarf að vera sveigjanleiki til breytinga, eins og þegar menn hafa viljað laga stöðu kvennahópa eða láglaunahópanna almennt, þá þarf það að vera hægt. Þú gerir það ekki í svona handjárnuðu sambandi nema með leyfi þeirra sem sitja á toppnum og ráða öllu,“ segir Ögmundur sem telur að allt líf deyi í verkalýðshreyfingunni ef það er fámenn forysta hreyfingarinnar og sérfræðingar sem móti stefnuna úr tengslum við fjöldann.

En þó geti komið tímar, erfiðir tímar, sem þurfi þó ekki að vera hafís og móðuharðindi eða neitt slíkt, þar sem ákjósanlegast sé talið að gera átak í húsnæðismálum, vaxtamálum eða öðrum þjóðþrifamálum og ágætt sé að menn leggist þá á sömu árar en ekki eigi að festa slíkt fyrirkomulag til frambúðar. Þvingun sé slæm. Slagurinn snúist um að forðast að stofnanavæða kjarabaráttuna. Iðulega sé vísað til Norðurlandanna sem fyrirmyndar. Ögmundur segist hins vegar ekki sjá betur en að verkalýðshreyfingin á Norðurlöndum hafi verið að veikjast jafnt og þétt samhliða stofnanavæðingu við samningaborðið og í sumum geirum hennar þurfi hreinlega að bera spegil að vitum manna til að ganga úr skugga um hvort þeir séu yfirhöfuð með einhverju lífi.

Verkalýðshreyfingin notist við sérfræðinga en þeir eigi ekki að ráða

Í þessu viðtali hefur Ögmundi orðið tíðrætt um að sérfræðingar eigi ekki að vera einráðir um kröfugerð og stefnumótun verkalýðshreyfingarinnar. Honum finnist augljóslega ekki að auka eigi vægi þerra en er hann á móti aðkomu sérfræðinga yfirleitt að störfum verkalýðshreyfingarinnar? Þessu svarar Ögmundur og segir: „Ég vil ekki misskiljast þannig að ég sé að gera lítið úr störfum sérfræðinga, þeirra sem hafa sérhæft sig í einhverjum tilteknum þáttum og vissulega vil ég horfa til þeirra og hlusta á þá.“ En vægi þessa hóps hafi farið vaxandi á síðari tímum, segir Ögmundur, og hann heldur áfram: „ Spyrja þarf hvað við raunverulega eigum við þegar við tölum um sérfræðinga, sérfræðinga í hverju? Sérfræðingar í bankamálum? Þurfum við ekki að vera nákvæmari? Vill verkalýðshreyfingin ekki frekar sérfræðinga í samfélagslegum bönkum en bankastarfsemi almennt? Er verið að tala um slíka sérfræðinga,“ spyr Ögmundur. „Nei, ekki heyrist mér skilningurinn almennt vera sá heldur sé verið að tala um sérfræðinga í þanþoli atvinnurekendanna, arðsemisprósentum og öðru slíku, allt úr þessari átt, samfélagið er þarna alltaf fjarri,“ segir hann og vill ekki setja alla sérfræði undir sama hatt. Hreyfingin þurfi fyrst og fremst á þekkingu að halda sem horfi til raunverulegra hagsmuna launafólks, um hvað einkavæðing hafi leitt af sér í löndunum í kringum okkur og annarsstaðar og hvernig til hafi tekist með samfélagsbanka og annað slíkt. Hann myndi fagna slíkri sérþekkingu og vissulega sé hún til staðar en það séu þó undantekningar, og ítrekar að ekki megi setja alla þekkingu undir sama hatt: „Að sjálfsögðu er þekking eftirsóknarverð en markmiðið hlýtur að vera að ná í þekkingu sem gagnast til kjarajöfnunar og byggir undir félagslegt réttlæti.“

Verkalýðshreyfingin eigi þó ekki að óttast neitt. Hún eigi að vilja heyra allt og eigi vissulega að taka þátt í umræðu um svigrúm fyrirtækja. Til dæmis þegar verkalýðsfélag fór fram með kröfu um fjögurra daga vinnuviku. Þetta sé dæmi um nokkuð sem þurfi að skoða með hliðsjón af líklegum afleiðingum. Ögmundur segir að eflaust væri fínt að hafa fjögurra daga vinnuviku og það væri gott fyrir fjölskylduna og börnin en að sjálfsögðu þurfi að spyrja hvað það þýði að setja slíka kröfu á öll fyrirtæki, hvaða afleiðingar það hefði til dæmis á launaþáttinn. Vinnuvika upp á fjóra daga hjá fyrirtækjum sem eru opin alla vikuna gerir það að verkum að ekki sé hægt að halda uppi sömu kröfum um umbætur á launaliðnum. Þessa þætti þurfi verkalýðshreyfingin að skoða og taka afstöðu til. Þetta sé dæmi um atriði sem kalli á mikla almenna umræðu því þetta snerti allan fjöldann. Til dæmis þyrfti að spyrja hvort lítill veitingastaður með þriggja daga vinnuviku gæti greitt „æðislega há laun“ eins og hann orðar það. Hreyfingin eigi að horfa á þessa þætti, um getu atvinnustarfsemi til þess að fúnkera á raunhæfan hátt. Menn séu frekar að horfa til styttingar vinnuvikunnar hjá stóru aðilunum, fiskvinnslunni, sjávarútveginum, stórversluninni og ferðaþjónustunni en einnig þar þurfi að spyrja framangreindra spurninga og leita vitiborinna svara. Þarna megi sérfræðingarnir gjarnan reikna. „Svo tökum við hin öll við með allar staðreyndir á borðum og þá einnig hvort eitt dugi fyrir alla í þessum efnum. Verkalýðshreyfingin á að ræða þetta sem annað, vera tilbúin til þess og hræðast ekki nokkurn skapaðan hlut. Ég er einfaldega að segja að hinum almenna launamanni megi aldrei skáka út úr umræðunni.Það er mergurinn málsins.“

Hann segir frá tíma sínum hjá BSRB, að þar hafi menn verið hlynntari miðstýrðum kjarasamningum fyrir opinbera starfsmenn á meðan háskólafólkið hafi viljað dreifstýringu. Einstök aðildarfélög höfðu þó alltaf átt að hafa svigrúm til sérkjarasamninga. Það var talið verið mikilvægt. En á sameiginlegu borði hafi BSRB viljað passa upp á lágtekju- og millitekjuhópana. „Hvað gerðum við? Við fórum að stúdera dreifstýringu í Svíþjóð þegar slíkt var a döfinni hér í kringum aldamótin. Í ljós kom að í Svíþjóð jókst launamunur með dreifstýringu samninga. Hverjir stúderuðu þetta? Það voru sérfræðingar sem komu með þetta inná borð hjá okkur. Þannig að sérfræðin gagnast okkur ef henni er rétt beitt og málin skoðuð í ljósi baráttumarkmiða okkar. Við vildum vita hvaða áhrif dreifstýring hefði haft á jöfnuð og fengum svör.” Forysta samtakanna, stjórnarfólk og allir áhugasamir hafi svo unnið úr þeim upplýsingum sem sérfræðingar hafi gefið þeim en þar kom í ljós að með dreifstýringu í Svíþjóð hafi launamunur aukist. Það sé gott að hafa sérfræðinga sem komi með reynslu sína og þekkingu annarsstaðar frá og auðvitað eigi verkalýðshreyfingin að nýta hana, „en þeir eigi ekki að ráða og það er ekki sama hver sérfræðin er!“ Horfa eigi í auknum mæli til sérfræðinga í félagslegum lausnum.

Í sögu ASÍ sem rituð var af Sumarliða Ísleifssyni, sagnfræðingi kom fram að á níunda áratugnum hafi verkalýðshreyfingin, þá sérstaklega á sviði Alþýðusambands Íslands farið að huga að stærð þjóðarkökunnar í stað skiptingar hennar en þá sögu kannast Ögmundur vel við. Því vilji hann svara svona: „Þá segi ég bara þetta: Í kapítalísku samfélagi eru nógir um að vilja stækka þessa köku, þá er ég að tala um þá sem hugsa um það eitt að þenja hagkerfið út. Hlutverk verkalýðshreyfingarinnar á hins vegar fyrst og fremst að snúast um skiptingu kökunnar.“ Verkalýðshreyfingin eigi vissulega ekki að leggja stein í götu nýsköpunar í efnahagskerfinu en hún eigi ekki að taka ábyrgð á henni, vera talsmaður hennar, heldur sé skiptingin hennar höfuðviðfangsefni, og ekki veiti af að réttlát skipting eigi sér öfluga talsmenn. „Ef við förum með þetta út í öfgarnar, þá munum við eftir trickle down theory, brauðmolakenningunni“ en þar var um að ræða stóran þátt í nýfrjálshyggjunni sem varð allsráðandi eftir tilkomu Ronalds Reagans í stól forseta Bandaríkjanna og Margrétar Thatcher í stól forsætisráðherra Bretlands, já og Davíðs Oddssonar og Eimreiðarmanna í valdastóla á Íslandi en Ögmundur útskýrir þessa kenningu ágætlega: „Látum hin ríku baka stór brauð og þá hljóti einhverjir molar að hrjóta niður til hinna.“ Þetta sé hins vegar falskenning því svona gangi hlutirnir ekki fyrir sig í þessu bakaríi! „Þetta býður upp á misskiptingu innan þjóðfélaga,“ segir hann og tekur dæmi frá Suður Afríku og aðskilnaðarstefnunni sem þar var við lýði. Menn hafi haldið því fram að svartir menn í Suður Afríku hefðu það betra en í nágrannaríkjunum: „Bíddu nú við, hafa svartir menn það ekki betra í Suður Afríku en í grannríkjunum? Þannig spurðu einhverjir. En þetta er bara ekki mergur málsins. Ranglátt þjóðfélag er veikt þjóðfélag þegar til lengri tíma er litið. Ef þú hefur ekki einhverja trausta kjölfestu þá fer illa, illa fyrir öllum, líka gróðapungunum sem vilja vera í friði að baka stóru brauðin, það fer líka illa fyrir þeim. Í Suður-Afríku var samfélagið eyðilagt með ranglæti. Svo einfalt var það.”

Ögmundur telur það ekki vera ómögulegt að skrifa undir samninga án þátttöku ríkisvaldsins. En þarna varar hann aftur við alhæfingum. Það sé ekki svo að það sé alltaf óumdeilt það sem verkalýðshreyfingin fari fram á. „Og þegar verkalýðshreyfingin fer að einblína á markaðslausir eins og hún hefur gert í seinni tíð, til dæmis með markaðsvæðingu innan heilbrigðisþjónustunnar, með tilkomu VIRK svo dæmi sé tekið. Það er bara markaðslausn sem ég tel að aldrei hafi átt að verða. Menn létu eins og Grensásdeild, Reykjalundur og almenn endurhæfing heilbrigðisþjónustunnar hefði aldrei verið til og þess vegna þyrfti að búa til nýja stofnun. Fyrrnefndar stofnanir hefði ég viljað efla í stað þess að búa til nýjan millilið með 0,39% af launasummu landsmanna beint í vasann,” segir Ögmundur sem telur einnig að verkalýðshreyfingin hafi í auknum mæli farið að horfa til markaðslausna í húsnæðismálum. Fremur ætti hún að hans mati að beina kröfum að sveitarfélögum um að stórauka við félagslegt húsnæði. Það sé ekki sama hvað verkalýðshreyfingin biðji um og stjórnvöld eigi alls ekki að skrifa sjálfkrafa upp á þeirra víxla. Það nægi honum ekki að heyra að krafa komi frá verkalýðsfélagi til að hún verði samþykkt. Oftast nær hafi kröfur verkalýðshreyfinagrinnar þó verið réttmætar. „Þær félagslegu breytingar sem orðið hafa til góðs síðustu áratugina eru ekki síst baráttu hennar að þakka. Og hér undirstrika ég baráttu!“ En í þessu sambandi megi ekki gleyma því að verkalýðshreyfingin sé ekki ein á báti þegar bankað er upp á hjá ríkisvaldinu. Þar eru atvinnurekendur einnig mættir til leiks og stundum þessir tveir saman, margfrægir „aðilar vinnumarkaðarins“ þar sem atvinnurekendur séu sælir á meðan þeir sleppi við launaþáttinn og komist upp með að setja allar byrðar á ríkis- og sveitarsjóði. „Svo er býsnast yfir hækkunum hjá hinu opinbera en þá vill gleymast að uppistaðan í rekstrarkostnaði hins opinbera, sjúkrastofnunum, skólum og félagsþjónustu er launakostnaður. Það er hann sem iðulega veldur hækkunum hjá hinu opinbera.“

Hvað varðar samskipti vinnumarkaðarins við ríkisvaldið, þá fari þessi samskipti eftir því hvernig stjórnvöld hafi hegðað sér er varðar þá þætti sem búa vel um fólk eins og er varðar réttlæti í húsnæðismálum eða í öðrum þáttum sem snúa að velferð. Ögmundur telur að stjórnvöld eigi ekki alltaf að koma að borðinu: „Mér finnst ekkert eigi að gerast sjálfkrafa. Stundum eiga atvinnurekendur að axla sína ábyrgð sjálfir og koma einir að borðinu og semja um kaup og kjör. Mér finnst oft að sú eigi að vera raunin. Það breytir því ekki að stjórnvöldin eigi að vera stöðugt að við að bæta samfélagið, það eigi að gerast öllum stundum þannig að í þeim skilningi eigi ríkisvaldið að sitja alltaf við kjaraborðið ekki bara þegar samningar á vinnumarkaði eru lausir. “ Það sé mikilvægt hvernig landinu sé stjórnað í þessum efnum. Það sem hafi þó gerst sé að nánast allt hafi orðið markaðsvæðingunni að bráð. „Þú getur ekki horft á fjall eða eldgíg án þess að borga fyrir það, fossarnir ganga kaupum og sölum, að ógleymdum fjöllunum sem eru seld úr landi.“ segir Ögmundur sem hefur barist ötullega gegn gjaldtöku á ferðamannastöðum á borð við Geysi, við Kerið á Suðurlandi og á Þingvöllum, þjóðgarðinum sem eigi að vera okkur öllum opinn án gjaldtöku. Raunin sé hinsvegar sú að það sé verið að markaðsvæða allt þjóðfélagið að mati Ögmundar og vill hann meina að mikilvægt sé hverjir séu við stjórnvölinn þannig að horfið verði frá þessari braut en það sé ekki raunin nú, hér sé stjórnað í vaxandi mæli í anda markaðshyggju.

Þegar Ögmundi er bent á að nú hafi sósíaldemókratar og sósíalistar reglulega verið við stjórn á Norðurlöndunum og á meginlandi Evrópu þá svarar hann því að viðhorfin hafi breyst, þessir flokkar horfi nú, miklu frekar en áður, til markaðslausna í þjóðfélaginu. „Sósíaldemókratar eins og í Svíþjóð með Olof Palme við stjórnvölinn sögðu sem svo að þeir væru hlynntir markaðskerfi en forsvarsmenn markaðarins mættu þó aldrei verða ráðandi. Við eigum að ráða, sögðu þeir, við setjum lögin, við setjum rammann. En það sem hefur breyst í seinni tíð er það að eftirkomendur Olofs Palme eru farnir að dansa með atvinnurekendavaldinu. Gefa eftir stjórnina.” Í þessu sambandi tekur Ögmundur dæmi af húsnæðismálunum í Reykjavík þar sem verktakarnir ráði öllu sem þeir vilji ráða, jafnvel skipulagsmálunum. Hann tekur fram að þetta stríði gegn vilja almennings, um það sé hann sannfærður að almennt viðhorf fólks sé á einn veg, til varnar almannahagsmunum. Þetta eigi við á öðrum sviðum einnig, Þar nefnir Ögmundur að yfirgnæfandi meirihluti fólks sé gagnrýnið á kvótakerfið, yfirgnæfandi meirihluti fólks vilji ekki einkavæðingu í heilbrigðiskerfinu, yfirgnæfandi meirihluti fólks vilji að vatnið, rafmagnið og skólpið sé á hendi hins opinbera og yfirgnæfandi meirihluti fólks vilji ekki selja aðgang að náttúruperlum og svo framvegis. „Ef þetta er nú veruleikinn, að þetta sé hið almenna viðhorf undir niðri, er þá ekki verkefnið að láta þann vilja koma í ljós og er það ekki verkefni verkalýðshreyfingarinnar að virkja þann vilja?“ Sé þetta verkefni verkalýðshreyfingarinnar vill Ögmundur sjá hreyfinguna reyna að glæða áhuga á almennu félagsstarfi og almennri þátttöku félagsmanna. „Þetta er það verkefni sem verkalýðshreyfingin þarf að beita sér að og síðan má hún gjarnan hafa sína sérfræðinga í samfélagsbönkum og félagslegum lausnum.“ Með með þess móti fáum við öfluga lifandi hreyfingu og komumst hjá því að allir verði settir undir eitt straujárn sem straui allar félagslegar lausnir út.

Aukið vald til sáttasemjara tilræði gagnvart lýðræðislegri kjarabaráttu

Þegar líða er farið á seinni hluta viðtalsins er ágætt að spyrja Ögmund út í málefni líðandi stundar á sviði verkalýðsbaráttunnar. Embætti ríkissáttasemjara hefur verið á milli tannanna á fólki síðastliðið ár en krappur dans embættisins gagnvart einu stærsta stéttarfélagi landsins opnaði glugga tækifæranna fyrir þá sem hafa viljað þrengja að stöðu verkalýðshreyfingarinnar. Ráðherrar og forsvarsmenn atvinnulífsins komu út á völlinn og viðruðu hugmyndir þess efnis að nú, í ljósi aðstæðna, þyrfti að auka valdheimildir ríkissáttasemjara. Ekki hefur bólað á frumvarpi ennþá og það er algjörlega óljóst hvort svo verði. Aðspurður hvort Ögmundur sé hlynntur eða andvígur breytingum á vinnulöggjöfinni í þá átt að valdssvið ríkissáttasemjara verði rýmkað kveðst hann andsnúinn þeim þar sem embættið sé hluti af stofnanaveldinu og þær breytingar sem hafi verið viðraðar séu tilræði við lýðræðislega kjarabaráttu. Ef aukin völd séu sett á hendur embættisins sé farið nærri því að banna verkföll. Í þessu samhengi sé ríkissáttasemjari útsendari Þjóðhagsráðs og þeirra sem koma vilja á kerfi í anda Salek. „Það fyrirkomulag vil ég ekki sjá. Það er vegna þess að það mun leiða til dauða verkalýðsbaráttunnar. Og það vil ég ekki sjá gerast!“

Aðspurður hvort réttlætanlegt sé að ríkisvaldið hafi þann möguleika að setja lög á verkföll segir Ögmundur að hin almenna regla eigi að vera sú að ekki eigi að vera hægt að setja lög á verkföll en vissulega geti komið upp einhver tilvik þar sem verkalýðsfélag eða hreyfingin í heild sinni frestar verkfalli eða reyni á einhvern sérstakan hátt að ná samkomulagi um frestun en bætir við: „En við megum ekki gleyma því að í kerfinu eru varnaglar fyrir hendi.“ Verkalýðshreyfingin komi aldrei til með að fara í aðgerðir sem skapi verulega alvarleg vandamál á sjúkrahúsum eða í löggæslunni, en segir jafnframt að við megum ekki gleyma því að ábyrgðin hljóti að vera beggja vegna borðsins. Oftast nær sé verkfall til komið vegna þess að viðsemjendur verkalýðsfélags hafi ekki viljað verða við fram settum lýðræðislegum kröfum um réttlát skipti. Aðilar á almennum vinnumarkaði og hjá hinu opinbera séu almennt mjög meðvitaðir um ábyrgð sína og varnaglarnir sem slegnir hafi verið með alls kyns undanþágukerfum í verkföllum séu til marks um ábyrgðarkennd þeirra.. „Allir þessir varnaglar eru þarna og verkalýðshreyfingin hefur nær alltaf, það sem ég kemst næst, sýnt ábyrgð þegar kemur að málum sem þessum. Verkfallsnefndir hafa veitt undanþágur þegar þess hefur verið þörf.“ 


Sé farið inn á þá braut að banna verkföll þá verði að ræða það í víðara samhengi að mati Ögmundar. „Þá þarf að horfa til kjaraskiptingar í þjóðfélaginu, ekki bara innan raða launafólks, horfa þarf til atvinnurekenda og fjárfesta svokallaðra. Væru menn tilbúnir að semja um þau hlutföll að sá lægsti bæri aldrei minna úr bítum en þriðjunginn af því sem sá hæsti fær? Ég hef margsinnis flutt þingmál þessa efnis en undirtektir hafa verið litlar. Ef samkomulag næðist um slíkar grundvallarbreytingar gætum við hugsanlega farið að ræða skilyrði fyrir verkföllum. Nei, það þyrfti mikið að breytast til að ég samþykkti bönn á verkföll.“ Grundvallaratriði sé að varnaglarnir séu fyrir hendi og verkalýðshreyfingin hafi alltaf sýnt ábyrgð „og ef við ætlum að ræða það að hægt sé að banna verkföll og færa mikil völd til sáttasemjara þá ítreka ég að því er ég algjörlega andvígur. Ef það á að gera eitthvað í þessa veru þá þarf að gera það í miklu stærra samhengi.“ Hann trúir því ekki að ríkisvaldið eins og það nú sé orðið þenkjandi með markaðsvæðingu að stefnumiði geti verið sanngjarnt verkalýðshreyfingunni en hann trúir því að fólk þurfi að hugsa um sinn eigin hag í sameiningu og á félagslegan hátt „og það sé miklu farsælla í stað þess að setja það í hendur sérfræðinga á vegum ríkisvaldsins að gera það sem þeir telja auðveldast hverju sinni.“

Aukinn launajöfnuður og gjaldfrjálst heilbrigðiskerfi

Í blálokin er Ögmundur spurður út í draumaleið hans til að ná fram kjarasamningi fyrir félagsfólk, væri hann í forystuhlutverki stéttarfélags. „Mín óskaleið væri sú að ríkisvaldið, sveitarfélög og atvinnurekendur myndu setjast saman fyrst og hugsuðu hvað þau gætu lagt af mörkum til þess að gera lífsviðurværi almenns launafólks sem auðveldast og best. Og við núverandi aðstæður myndi ríkisvaldið augljóslega segja að sá vandi sem steðji að okkur núna væri húsnæðisvandi hjá stórum hópum fólks, þarna þyrfti átak, sveitarfélögin tækju undir þetta og tækju ákvörðun um stóraukið framboð á húsnæði og síðan þegar þetta lægi fyrir þá hæfust kjarasamningar. Ekki væri litið á eðlilegt samfélagslegt framlag sem skiptimynt til að hafa eðlilegar launahækkanir af lágtekjufólki, þar sem sagt væri, við gerum þetta bara ef þið lofið að biðja ekki um hærra kaup. Þannig á þetta ekki að vera. Framlag ríkis og sveitarfélag myndi á hinn bóginn hafa áhrif á kröfur verkalýðshreyfingarinnar, það er augljóst, en þetta myndi losa báða aðila, aðallega verkalýðshreyfinguna, úr ákveðinni spennitreyju og gera samninga eðlilegri. ” 


Draumurinn er þó ekki raunhæfur eins og staðan er nú en ríkisvaldið heldur í sér með ráðstafanir sem full þörf er á en þær séu einungis nauðsynlegar í augum stjórnvalda til þess að ekki sé beðið um neitt í launavasann. „Ég er einfaldlega að segja að ríkisvaldið eigi að byrja fyrst á að axla sína eigin ábyrgð. Síðan verði sest við kjarasamningsborðið. Þetta hefur ríkisvaldið hins vegar alls ekki gert.“ Hann vill að áhersla verkalýðshreyfingarinnar verði gagnvart þeim sem lakast eru settir og reyni einnig að passa upp á launastrúktúrinn hjá hinu opinbera, hann eigi ekki að eyðileggja því þá haldi menn á vit frumskógarlögmálanna. Hann sé ekki sannfærður um að allir eigi að fara fram í einu að þessu sinni þannig að myndað verði eitthvað í líkingu við þjóðarsátt. Hann vilji fyrst fá að vita hvað það sé sem menn ætli að semja um sameiinlega, ekki síst í húsnæðismálum, sem hljóti að teljast mál málanna á borði ríkis og sveitarfélaga. Ögmundur skrifar ekki skilyrðislaust upp á leið verkalýðshreyfingarinnar í húsnæðismálum en þar á Ögmundur við að hreyfingin setji of mikla áherslu á eflingu leigumarkaðarins. Hann segist að vísu gera mikinn greinarmun á gróðafélögunum og þeim sem ekki eigi að skila arði , og vísar á fasteignafélagið Bjarg og Blæ þar sem það fyrrnefnda er rekið af ASÍ og BSRB en það síðarnefnda af VR. Samt hef ég efasemdir um þessi félög líka.„Ég vil miklu, miklu meiri beina aðkomu ríkisvaldsins og sveitarfélaganna að húsnæðismálum. Sveitarfélögin eiga sjálf að byggja og eiga sitt leiguhúsnæði svo vil ég að almennt launafólk geti eignast sitt húsnæði standi vilji til þess. Það er alltaf einhver sem á húsnæðið og spurningin er þá í hvers vasa þú viljir borga. Þetta er málefni sem þarf miklu meiri umræðu við. Yfirleitt er það fólk sem sjálft býr í einbýlishúsum sem segir að alla hina eigi að setja í ódýrt leiguhúsnæði. Einn stærsti samfélagsglæpur síðari tíma var að slátra verkamannabústaðakerfinu og sama á reyndar við um hinn marg-rægða Íbúðalánasjóð sem alltof margir sameinuðust um að grafa undan. Ég vil að heilbrigðiskerfið verði gjaldfrítt og svo vil ég sjá kjarajöfnun í þjóðfélaginu og það á að vera verkefni verkalýðshreyfingarinnar að stuðla að því.“ segir Ögmundur sem telur mikilvægt að varnaglar verði á kjarasamningum um að ef ríkisvaldið standi ekki við gefin loforð þá losni að einhverju leyti um samninga. Að lokum segir Ögmundur: „Það sem mér hefur þótt gleðilegt að sjá er aukinn baráttuandi innan félaga láglaunafólks og ég vil sjá vilja þessa fólks ná fram að ganga.“

Í þessu viðtali hefur verið farið vítt og breitt yfir efnistök verkalýðshreyfingarinnar, stefnu og tengingu hennar við ríkisvaldið. Í viðtalinu kemur skýrt fram vilji og sýn Ögmundar Jónassonar um hvert skuli stefna og eins og í fyrra viðtali, við Björn Grétar Sveinsson þá er ekki síður mikilvægt fyrir áhugafólk um verkalýðsmál og stéttabaráttu að rýna í orð Ögmundar sem hefur marga fjöruna sopið á nánast öllum sviðum, hvort sem horft er til málefna vinnumarkaðarins eða til þeirra starfa sem ríkisvaldið hefur á sinni könnu.

Mynd: Axel Jón Ellenarson

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí