Eflingarfélagar tilbúnir að beita sér af fullri hörku

Verkalýðsmál 9. feb 2024

Félagsfólk Eflingar hefur ítrekað á umliðnum árum upplifað virðingarleysi gagnvart samningsrétti sínum, hagsmunum og tilveru. Hefur það virðingarleysi birst af hálfu viðsemjenda Eflingar, sem og af embætti ríkissáttasemjara. „Tími slíks virðingarleysis í garð verka- og láglaunafólks er liðinn, og félagsfólk Eflingar er tilbúið að beita sér af fullri hörku til að þeim sé sýnd eðlileg lágmarksvirðing.“

Svo segir í ályktun sem samninganefnd og trúnaðarráð Eflingar samþykktu sameiginlega á fundi í gærkvöldi, 8. febrúar.  Ályktunina má finna hér. 

Rúmur hálfur mánuður er nú liðinn frá því að Breiðfylkingin, bandalag stærstu landssambanda og félaga innan ASÍ vísaði kjaradeilu sinni við Samtök atvinnulífsins (SA) til ríkissáttasemjara. Enn hafa samningar þó ekki náðst en gildandi kjarasamningar runnu út um síðustu mánaðarmót. 

Í yfirlýsingu samninganefndar og trúnaðarráðs Eflingar er lýst fullum stuðningi við framhald kjaraviðræðna á þeim grunni sem Breiðfylkingin hefur lagt upp með. „Samninganefnd og trúnaðarráð leggja þunga áherslu á að langtímakjarasamningur sé varinn ströngum forsenduákvæðum, sem séu í samræmi við yfirlýst samningsmarkmið og láti ekki áhættu af forsendubresti hvíla eingöngu hjá verkafólki.“

Þá er ekki síður lögð þung áhersla á að stjórnvöld komi að borðinu og styðji við gerð kjarasamninganna. Stjórnvöld þurfi að leiðrétta tilfærslukerfi hins opinbera, enda sé slík leiðrétting löngu tímabær. „Slíkt er algjör grunnforsenda þess að verka- og láglaunafólk geti sætt sig við kjarasamninga með hófsömum launahækkunum.“

Í yfirlýsingunni eru aðrar kröfur Eflingar í tengslum við kjarasamningsgerðina einnig áréttaðar. Er þar vísað til þess að tryggja þurfi vernd starfólks á almennum vinnumarkaði gegn ómálefnalegum uppsögnum og að réttindi og staða trúnaðarmanna á vinnustöðum verði tryggð og aukin. 

Sömuleiðis er í ályktuninni lýst fullum stuðningi við allar sameiginlegar kröfur Breiðfylkingarinnar. Sérstaklega er tilgreint að taka þurfi fyrir skerðingu áunninna réttinda verkafólks við endurráðningu þess hjá sama vinnuveitanda. Þá þurfi að koma í veg fyrir að kröfur vegna vangoldinna launa eða réttindabrota fyrnist hraðar en almennara fyrningarreglur gera ráð fyrir. „Efling metur samstöðu Breiðfylkingarinnar mikils,“ segir í ályktuninni. 

Ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að hægt verði að ljúka samningaviðræðunum á innan við viku, að mati samninganefndar og trúnaðarráðs. 

„Félagsfólk Eflingar hefur komið verulega til móts við Samtök atvinnulífsins og á heimtingu á því að samningsvilji þeirra sé endurgoldinn. Samninganefnd og trúnaðarráð treysta því jafnframt að ríkissáttasemjari geri sitt til að liðka fyrir viðræðum.“

Frétt af vef Eflingar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí