Forseti Azerbaijan endurkjörinn með yfirburðum í meingölluðum kosningum

Ljóst er orðið að Ilham Aliyev, forseti Azerbaijan, fékk svokallaða rússneska kosningu í forsetakosningum í landinu síðastliðinn miðvikudag. Þegar yfir 93 prósent kjörseðla hafa verið taldir hefur Aliyev tryggt sér yfir 92 prósent talinna atkvæða. Eftirlitsmenn á vegum Öryggis- og framfarastofnunar Evrópu, ÖSE, sem fylgdust með kosningunum segja hins vegar að kosningarnar hafi verið meingallaðar. 

Aliyev boðaði til snemmbúinna kosninga til að nýta sér auknar vinsældir sínar eftir að herlið landsins endurheimti Nagorno-Karabakh hérað í september þegar aðskilnaðarsinnar Armena lögðu niður vopn eftir þungar árásir azerska hersins. Armenar höfðu þá haft héraðið á valdi sínu í þrjá áratugi. 

Eftirlitsmenn ÖSE segja kosningarnar hafa farið fram við mjög heftar aðstæður og hafi einkennst því að gagnrýni á sitjandi forseta hafi verið bæld niður. Hann hafi þá ekki fengið raunverulegt mótframboð og vegna takmarkanna sem óháðir fjölmiðlar, stjórnarandstöðuflokkar og almenn lýðræðisleg umræða búa við í Azerbaijan hafi komið í veg fyrir raunverulega samkeppni við Aliyev. Því sem næst engin greinandi fréttaflutningur sé til staðar í landinu og það hafi þá komið í veg fyrir að kjósendur gætu tekið upplýsta ákvörðun. 

Aliyev, sem er 62 ára, hefur verið við völd í Azerbaijan í yfir tvo áratugi og með kosningasigrinum nú hefst enn eitt sjö ára kjörtímabil hans. Hann tók við forsetaembættinu af föður sínum Heydar Aliyev undir lok árs 2003, þegar sá síðarnefndi lá banaleguna. 

Aliyev hafa þegar borist hamingjuóskir frá kollegum sínum, þeirra á meðal eru Viktor Orbán forsætisráðherra Ungverjalands og Recep Tayyip Erdogan Tyrklandsforseti. Þá hringdi Vladimir Putin Rússlandsforseti í Aliyev til að óska honum til hamingju og ræddu forsetarnir tveir um áframhaldandi samstarf ríkjanna tveggja. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí