Mikil reiði er meðal margra Suðurnesjamanna eftir að myndband sem sýndi rútu aka á öfugum vegarhelming á Reykjanesbraut fór líkt og eldur um sinu á dögunum. Nú hefur sú reiði fengið ákveðinn farveg en Guðbergur Reynisson, sem staðið hefur fyrir framtakinu Stopp hingað og ekki lengra, hefur óskað eftir fundi með forstjóra Vegagerðarinnar. Hann hyggst fara fram á að aksturstefnur verði tafarlaust aðskildar á þessum kafla Reykjanesbrautarinnar.
„Vegna þessa atviks í gær þar sem rúta sveigir yfir á vitlausan veghelming við gatnamótin að álverinu í Straumsvík og leggur að minnsta kosti 10 aðra vegfarendur í hættu hef ég ákveðið að panta fund með vegagerðarráðamönnum og óska eftir að tafarlaust verði aksturstefnur aðskildar á þessum kafla með öllum leiðum og hámarkshraði tekinn enn meira niður,“ tilkynnir Guðbergur á Facebook og bætir við:
„Líka þarf að merkja vinnusvæðið á þessum nokkru stöðum þar sem verið er að byrja á tvöfölduninni enn betur og hafa lengri aðdraganda að því. Greinilega er fólk engan veginn meðvitað um að þessi kafli sé hættulegur þar sem umferð stigmagnast dag frá degi nú þegar glittir í vorið og þarf því að taka ákvarðanir út frá hegðun vegfarenda. Það er reyndar alveg ótrúlegt hve illa vinnusvæðið er merkt og væri gott að fá útlistun á því verklagi.“