Hamas-samtökin bjóða frelsun gísla í stað palestínskra fanga

Hamas-samtökin hafa lagt fram sínar tillögur um vopnahlé á Gaza-ströndinni sem andsvar við tillögu Ísraela, Bandaríkjanna, Katar og Egyptalands. Eru samtökin tilbúin að frelsa gísla í stað frelsuna Palestínumanna sem sitja í ísraelskum fangelsum. Samtökin hafa hins vegar lýst því yfir að ekkert samkomulag verði gert nema það innberi að bundinn verði endir á árásarstríð Ísraela. 

Sex almennir borgarar létust í árásum Ísraela á Gaza í gær og auk þess felldi Ísraelsher ellefu Palestínumenn í morgun. Talsmenn hersins halda því fram að um hafi verið að ræða vígamenn Hamas-samtakanna en það hefur ekki verið staðfest af neinum óháðum aðilum. Tala látinna Palestínumanna frá upphafi árásarstríðs Ísraela er að minnsta kosti 27.585 manns og tæplega 67 þúsund hafa særst í árásum Ísraelshers. Tala látinna Ísraela er 1.139. 

Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, flaug til Ísrael í dag og er ferð hans í því skyni að reyna að koma á vopnahléi á Gaza. Blinken hafði áður fundað með stjórnvöldum í Egyptalandi og í Katar en bæði ríki hafa haft milligöngu um samningaviðræður milli Hamas-samtakanna og ísraelskra embættismanna. Blinken mun funda með Benjamin Netanyahu forsætisráðherra Ísraels og Isaac Herzog forseta landsins. Engum sögum fer af því að hann hyggist ræða við fulltrúa Hamas eða Palestínumenn yfirleitt. 

Hamas-samtökin hafa lýst því yfir að þau muni ekkert samkomulag gera nema það inniberi að bundinn verði endir á árásarstríð Ísraela. Ísraelar hafa hins vegar sagt að stríðinu verði ekki lokið nema með útrýmingu Hamas. 

Ísraelar dragi allt herlið sitt frá Gaza

Hamas-samtökin sendu í gær út yfirlýsingu varðandi drög að vopnahléssamkomulagi sem lögð voru fram af hálfu fulltrúa Ísrael, Bandaríkjanna, Katar og Egyptalands. Í yfirlýsingunni sagði að samtökin hefðu lagt mat á drögin með jákvæðri nálgun. Í dag birti Reuters fréttastofan óstaðfesta frétt þess efnis að Hamas hefði lagt til áætlun um vopnahlé sem byggi á þremur áföngum. Í því fælist að fram færu skipti á gíslum sem Hamas hefur haft í haldi frá 7. október í stað palestínskra fanga, að uppbygging á Gaza yrði tryggð og að Ísraelar drægu til baka allt herlið sitt. 

Al Jazeera fréttastofan hefur birt ítarlegri greiningu á tillögum Hamas og hefur upplýsingar sínar innan úr samtökunum sjálfum. Í fyrsta áfanga myndi Hamas sleppa konum, börnum, öldruðum og sjúkum úr hópi gísla sinna. Samtökin krefjast í staðinn þess að 1.500 föngum verði sleppt úr ísraelskum föngum, þar á meðal 500 Palestínumönnum sem hlotiða hafa lífstíðardóma eða mjög langa fangelsisdóma, og einnig öllum konum, börnum og öldruðum. 

Þá þarf samkvæmt tillögunni að tryggja að minnsta kosti 500 vörubílar með matvæli og eldsneyti verði sendir daglega inn á Gaza-ströndina, til allra svæða. Þá krefst Hamas þess að komið verði upp 60 þúsund bráðabirgða húsum og 200 þúsund tjöldum í fyrsta áfanga. Þá þurfi Ísraela að samþykkja áætlanir um uppbyggingu íbúðarhúsnæðis, atvinnuhúsnæðis og almanna aðstöðu sem hefur verið eyðilögð, á næstu þremur árum. 

Hamas krefst þess þá að Palestínumenn sem lagt hafa á flótta frá heimkynnum sínum fái að snúa aftur heim og að ferðafrelsi milli norður- og suðurhluta Gaza verði tryggt.  

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí