Svarar Kolbrúnu fullum hálsi: „Að gagnrýna þetta er kallað einelti“

„Meðal forsetaframbjóðenda er Steinunn Ólína Þorsteinsdóttir, sem virðist eiga það eina erindi í baráttuna að minna á hversu hræðileg Katrín Jakobsdóttir er. Eins og harðgreindur maður, sem hefur sannleikann að leiðarljósi, sagði réttilega þá minnir Steinunn Ólína þessa dagana einna mest á eltihrellinn í Baby Reindeer. Og hún kemst upp með það.“

Þetta skrifar Kolbrún Bergþórsdóttir, blaðamaður á Morgunblaðinu, en líkt og svo oft áður, þá er vikulegur pistill hennar helgaður því sem hneykslar hana hverju sinni. Að þessu sinni er Kolbrún hneyksluð á allri gagnrýni sem Katrín Jakobsdóttir hefur mátt þola í forsetaframboði sínu. Raunar talar Kolbrún á þeim nótum að Katrín sé lögð í einelti. Steinunn Ólína svarar þessum pistli í dag og segir þetta einfaldlega þvælu.

„Hvað eigum við að gera við óvitana gott fólk? Nú er blessunin hún Kolbrún Bergþórs kölluð til starfa til að gera lítið úr ástríðu minni fyrir hag lands og þjóðar. Hún bætist þar í hóp svokallaðs mektarfólks í okkar samfélagi sem lýgur því blákalt að ég hafi gengið fram með eineltistilburðum gagnvart fyrrum forsætisráðherra. Þetta er lygi en ef þessir óvitar halda þessum málflutningi áfram trúa þau eflaust að aðrir muni trúa. Ég hef meira álit á landsmönnum en svo og svona málflutningur snertir mig ekki. Svona málflutningur er flasa. En hvað hef ég gagnrýnt?,“ spyr Steinunn og heldur áfram:

„Í stjórnartíð fyrrverandi forsætisráðherra lagði hún á ráðin,skrifaði, samþykkti og lagði fram lagareldisfrumvarp úr þeirri sjávarútvegsstefnu sem upp er teiknuð og mun eyðileggja til frambúðar lífríki landsins. Stefnu sem gefur áfram auðlindir, eyðileggur atvinnumöguleika, rústar vistkerfum og vegur að mannréttindum fólks og sjálfstæði Ísllendinga. Að gagnrýna þetta er kallað einelti.“

Steinunn segir fleira mega gagnrýna í stjórnartíð Katrínar. „Í stjórnartíð fyrrverandi forsætisráðherra var í stað þess að nýta virkjunarkosti sem samþykktir eru og eru grænir og hreinir lagði hún á ráðin með ríkisstjórn sinni að setja af stað gullgrafaraæði í vindmyllurekstri, sem mun eyðileggja fuglalíf, valda landraski og náttúruspjöllum, eyðileggja ásjónu landsins, skapa engin störf og bara eyðileggingu til frambúðar. Ekkert gerði hún til sporna við sumpart tilbúnum orkuskorti með skynsamlegum lausnum til að koma í veg fyrir vindmylluarðránið fyrirætlaða. Að gagnrýna þetta er kallað einelti,“ segir Steinunn.

Hún bendir svo einnig á að þó Katrín verði forseti þá muni hún áfram bera pólitíska ábyrgð á umdeildum frumvörpum. „Fyrrverandi forsætisráðherra ber pólitíska ábyrgð á frumvörpum þeim sem samin voru og lögð eru fram í hennar stjórnartíð og getur ekki vikist undan að hafa ætlað að framselja, leigja, gefa og sumt um aldur og ævi íslenskar náttúruauðlindir til útlendinga og bestu vini þeirra sem eiga og ráða í okkar samfélagi. Þegar þessi frumvörp og fyrirætlanir úr eigin ranni, koma til afgreiðslu í þinginu þykist hún ætla að standa með þjóðinni, verði hún forseti? Að gagnrýna þetta er kallað einelti,“ segir Steinunn og bætir við að lokum:

„Við skulum við dusta af okkur flösuna, láta okkur þykja vænt um landið okkar og verja það fyrir óráðsíufólki sem gengur fram með óvitaskap. Maður verður að vera góður við óvita. Láta sér þykja vænt um þá og best er held ég að biðja fyrir þeim. Biðja þess að þeir sjái og skilji. Njótið fríhelgarinnar þið sem eruð svo heppin!“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí