Helga Vala hellir sér yfir Ingibjörgu Sólrúnu: „Þetta veistu Ingibjörg vel“

Óháð því hvort orð sem Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, lét nýverið falla um innflytjendamál boði stefnubreytingu eða ekki, þá hafa þau mælst misvel meðal Samfylkingarfólks. Í gær kom fyrrverandi formaður flokksins, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, henni til varnar í færslu á Facebook þar sem hún sagði þetta bara hafa verið almennar vangaveltur hjá Kristrúnu.

„Urdann, bíttann. Kristrún Frostadóttir var í hlaðvarpsviðtali um málefni innflytjenda ásamt með öðru. Það var eins og við manninn mælt, hún var ekki fyrr búin að ljúka orðinu en einhverjir höfðu fundið það út að þarna hefði formaður Samfylkingarinnar mælt af munni fram alveg nýja og harðari stefnu í málefnum innflytjenda. Samt voru þetta bara almennar vangaveltur um ýmsar hliðar þessara mála þar sem grunnstefið var sanngirni, mannúð og sjálfbærni,“ skrifar Ingibjörg meðal annars.

Þó margt Samfylkingarfólk hafi tekið undir með henni þá voru sumir sem létu í sér heyra. Þar á meðal var Helga Vala Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður flokksins. Hún segir í athugasemd:

„Það veldur mér vonbrigðum Ingibjörg Sólrún að þú skulir halda því fram að í þessu hlaðvarpi hafi forystukona jafnaðarmanna á Íslandi “varpað fram spurningunni hvað hún geti gert raunsætt í málinu”. Í þessu viðtali, og öðru því sem frá forystufólki flokksins hefur komið, hefur verið stillt upp sem andstæðum hagsmunum; velverðarkerfi og fólki á flótta. Hefur jafnvel verið talað um að “opin landamæri” séu ógn við velferðarkerfið og talað um hvort við getum tekið á móti tugum þúsunda flóttamanna á hverju ári.“

Helga Vala segir enn fremur grafalvarlegt að gefa það í skyn að grotnandi innviðir séu á einhvern hátt tengdir flóttamönnum. „Með þessari orðræðu nýrrar forystu Samfylkingarinnar er verið að láta eins og veikir innviðir hafi eitthvað að gera með þá fáu umsækjendur um vernd sem hingað rata. Hinn venjubundni hópur hefur ekki stækkað. Sá hópur sem stækkaði verulega er sá sem íslensk stjórnvöld handvöldu inn og ganga framfyrir röðina. Þegar forystufólk NS talar um þúsundir sem teppa kerfið með tilheyrandi kostnaði þá virðast þau ekki vita að hluti hópsins teppir engin kerfi því þau fá leyfi og kennitölur innan fárra daga vegna pólitískrar ákvörðunar stjórnvalda. Þau frá Venesuela, sem áður nutu þess forgangs þurftu svo skyndilega að fara inn í langa kerfið með tilheyrandi kostnaði og töfum,“ sagði Helga Vala og bætti við:

„Heilbrigðiskerfið er laskað vegna pólitískrar ákvörðunar. Það reynir verulega á það að fá tvær milljónir ferðamanna árlega og tugþúsundir EES borgara sem setjast hér að. Þau ca 500 sem sækja hér um vernd àrlega (utan Úkraínu og Venesuela) eru ekki að sliga kerfin. Það að kenna þeim um er popúlismi sem er vel þekktur um alla veröld því miður og mun bara leiða af sér hörmungar fyrir samfélög og einstaklinga í formi ofsókna og skautunar. Þetta veistu Ingibjörg vel, enda hefur þú kynnt þér stefnu og ástand víða um heim.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí