„Það er mikilvægt að leigendur hafni endalausri aðför að lífsviðurværi sínu, þó að græðgismagar leigusalanna góli á meiri gróða þá látum við það ekki eftir þeim. Það er kominn tími á aðgerðir!“
Svo lýkir Guðmundur Hrafn Arngrímsson, formaður Leigjendasamtakanna, pistli þar sem hann bendir á gróði leigusala á Íslandi sé fyrir löngu búinn að taka út yfir allan þjófabálk. Nú taka leigusalar á Íslandi nærri tífallt hærri arð af eignum sínum en þeir sem fjárfesta í verðbréfum.
„Margir leigusalar leggja það í vana sinn að bera sig aumlega yfir því hversu lítið sé að hafa upp úr okrinu og ofbeldinu á leigumarkaði. Frá árinu 2011 hefur virði leiguíbúðar þó hækkað töluvert mikið meira en virði verðbréfa skv úrvalsvísitölu. En yfir lengri tíma er þó nokkurt samhengi á milli hækkunar á húsnæði og hækkun á verðbréfum,“ segir Guðmundur Hrafn og heldur áfram:
„En það sem leigusalar taka sér í arð af eignum sínum í gegnum leigutekjur er hinsvegar á bilinu 6-10 falt hærri en hjá þeim sem fjárfesta í verðbréfum. Arðurinn eða tekjur af eign er það gjald (eða einskonar vextir) fyrir að lána verðmæti. Á verðbréfamarkaði eru arðgreiðslur að meðaltali 0.4-1.0% af virði eignar (hægt að sjá á ársreikningum lífeyrissjóða). Á leigumarkaði eru arðgreiðlsur af virði eignar hinsvegar á bili 5-7%, eða eins og áður sagði að meðaltaltali um það bil tífalt hærri.“
Einn stór munur er þó á þessu tvennu, fjárfesting í verðbréfum skilar oft einhverju góðu út í samfélagið. Það sama má ekki segja um leigusölu, sú fjárfesting skapar bara ömurð. „Í tilviki fjárfesta á verðbréfamarkaði er verið að treysta á virði fyrirtækja í framleiðslu, þjónustu, flutningum og þess háttar. Innan úr stórum atvinnugreinum treysta fjárfestar á að fá góða ávöxtun og hóflegar arðgreiðslur. Á bakvið þær arðgreiðslur eru stærstu og ríkustu fjármálaöfl landsins, og/eða heimsins alls. Þar eru ásættanlegar aðrgreiðslur um 04-1.0% af virði eignar (0.7% að meðaltali frá árinu 2011 af fjárfestingum Almenna lífeyrissjóðsins í verðbréfum),“ segir Guðmundur Hrafn.
Afleiðingar af okurleigusölu má svo sjá víða í samfélaginu og bitnar í raun á öllum. „Á meðal leigusala hinsvegar, þar sem ægir saman verstu eiginleikum mannsins er krafan um að arðgreiðslur á leigumarkaði séu að meðaltali tíu sinnum hærri en á verðbréfamarkaði, …þrátt fyrir að búa við hærri ávöxtun en þar. Á bakvið þær arðgreiðslur eru hinsvegar heimili, foreldrar, fjölskyldur, ungt fólk, þar eru þúsundir fátækra barna í örvæntingu, fólk á vergangi, fólk í lífshættu og fólk sem býr við langvarandi heilsutjón af völdum leigusalanna sjálfra. En það skiptir þá engu máli, þeir sofa sæmilega svartir í augum undir vögguvísum mis-vel innrættra hagfræðinga sem segja að þeir eigi allan rétt á þessu,“ segir Guðmundur Hrafn.
„Kapítalistar sem ætla sér að græða á leigjendum eru hugsanlega það versta sem fyrirfinnst í okkar samfélagi. Ég varð þess áskynja um leið og ég kom á leigumarkað að staðan þar dregur fram það allra versta í mannlegu fari og það hefur bara versnað.“