Lögmaður þolir ekki lengur græðgi Landsbankans og grípur til sinna ráða

Í umræðu í þjóðmálaþættinum Rauða borðið á Samstöðinni síðustu mánuði hefur okur íslenskra banka og sífellt minni þjónusta þeirra við almenning, auk gjaldtöku fyrir ýmsa hluti sem áður voru fríir, ítrekað verið til umræðu.

Katrín Oddsdóttir mannréttindalögmaður beitir sér reglulega fyrir nýrri stjórnarskrá. Hún er í hópi þeirra Íslendinga sem hafa gagnrýnt íslenska bankakerfið. Hún hefur nú fundið mótleik í kerfinu og segir að það hafi aðeins tekið hana sjö og hálfa mínútu að bregðast við „græðgi bankanna“ eins og hún orðar það og spara sér kostnað með því að stofna reikning hjá Indó sem hafi verið einfalt mál.

Hún sleppur því framvegis við „fáránleg færslugjöld“ eins og hún orðar það, ekki síst utan landsteinanna, sem Katrín hafði ekki hugmynd um að hún væri að greiða af hverri kreditkortafærslu hjá Landsbankanum.

„Þoli ekki svona græðgi – hvað þá hjá félagi sem er í almenningseigu,“ segir Katrín og vísar til þess að Landsbankinn sem er að fullu í eigu íslenska ríkisins hegðar sér eins og um einkafélag sé að ræða.

Kreditkortafærslur í útlöndum geta kostað Íslending heilar 200 krónur.

Margir landsmenn hafa fordæmt þá ráðgátu að íslenskir bankar hegni eigin viðskiptavinum grimmilega fyrir að nota fé sem fólk hefur sjálft unnið til og leggur inn á eigin reikning.

Snúið er að aftengjast algjörlega íslensku bönkunum eftir því sem fram kemur í umræðu um ákvörðun Katrínar á facebook. Sumir mæla með að færa reglulega vörslufé yfir til Indó, taka út af þeim reikningi í útlöndum og lækka með því mjög færslukostnað.

Auk þessa getur það kostað Íslending mörg hundruð krónur að taka litla fjárhæð út úr hraðbanka innanlands.

Hagnaður íslensku bankanna nam samanlagt á þriðja tug milljarða síðasta ár.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí