Lýðræði og frelsi á niðurleið á heimsvísu – Ísland stendur í stað

Lýðræði á heimsvísu átti verulega undir högg að sækja á síðast ári, þar sem ofbeldi og kúgunartilburðir urðu til að spilla fjölda kosninga. Þetta kemur fram í nýrri ársskýrslu Freedom House, óháðra samtaka sem fylgjast með frelsis- og lýðræðisþróun í heiminum. Ísland stendur í stað á frelsiskvarða samtakanna milli ára og skorar 94 stig af 100 mögulegum, og skipar sér í röð frjálsustu landa heims. Ísland skorar þó lægst Norðurlandanna en samkvæmt kvarða Freedom House er Finnland frjálsasta land í heimi, skorar 100 stig af 100 mögulegum.

Í skýrslunni komast samtökin að því að pólitísk réttindi og borgaraleg réttindi hafi dalað í 52 löndum en staðan hafi batnað í aðeins 21 landi. Er þetta átjánda árið í röð þar sem frelsi á heimsvísu hefur dalað og fór staða mála verulega versnandi á síðasta ári, miðað við fyrra ár. Aldrei hefur frelsi aukist í jafn fáum löndum frá árinu 2005. 

Samtökin breyttu skilgreiningu tveggja landa milli ára. Ekvador fór frá því að vera frjálst land og í að vera frjálst að hluta, á meðan að Tæland hækkaði skilgreiningu sína í að vera frjálst að hluta frá því að vera ófrjálst land. 

Auk ofbeldis og kúgunartilburða sem spilltu kosningum eða höfðu óeðlileg áhrif á lýðræði  í löndum á borð við Ekvador, Kambódíu, Póllandi og  Tyrklandi, gerðu stríðsátök og einræðistilburðir heiminn ófrjálsari, óöruggari og ólýðræðislegri á síðasta ári. Í skýrslunni eru nefnd ríki eða landssvæði á borð við Nagorno-Karabakh, sem Aserar hernámu á síðasta ári; Úkraína, þar sem árásarstríð Rússa stóð og stendur enn yfir;  Rússland, þar sem frelsi hefur farið ört minnkandi meðfram hernaðinum í Úkraínu; Mjanmar, þar sem borgarastyrjöld geysar eftir valdarán hersins árið 2021; Súdan, þar sem her og uppreisnarhersveitir berjast af grimmd; og Palestína, þar sem Ísrael heyr árásartríð á Gaza-ströndinni. 

Íslenskir stjórnmálaflokkar of tengdir viðskiptalífinu

Sé horft á stöðu Íslands á skala samtakanna skorar landið 94 stig af 100. Það er sama skor og síðasta ár, og raunar allt frá árinu 2019. Árið 2018 skoraði Ísland 95 stig og árið 2017 97 stig. 

Meðal þess sem upp á vantar til að Ísland skori fullt hús á kvarða Freedom House er að stjórnmálaflokkar eru í einhverjum tilvikum sagðir of tengdir viðskiptalífinu, sem hafi þar með óeðlilega mikil áhrif á íslensk stjórnmál. Þá vantar upp á varnir gegn spillingu og er bæði tilgreint að Ísland hafi ekki að fullu uppfyllt tilmæli GRECO, ríkjahóps gegn spillingu innan Evrópuráðsins, og einnig að umboðsmaður Alingis hafi komist að því að Bjarni Benediktsson hafi ekki verið hæfur sem fjármálaráðherra til að selja hlut ríkisins í Íslandsbanka, í ljósi þess að faðir hans var einn kaupenda. Bjarni sagði af sér en tók við sem utanríkisráðherra nokkrum dögum síðar. 

Þá er tilgreint að nokkuð vanti upp á gegnsæi hjá hinu opinbera og að upp á vanti þegar kemur að frjálsri fjölmiðlun. Er þar sérstaklega tilgreind sú staða að fjórir blaðamenn séu til rannsóknar fyrir að flytja fréttir af mútubrotum og spillingu Samherja. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí