Við ættum flest að kannast vel við mormóna enda hafa trúboðar á þeirra vegum verið áberandi svo áratugum skiptir á Íslandi. Yfirleitt eru það tveir ungir karlmenn, í jakkafötum, á ferð sem tala nokkuð bjagaða en þó góða íslensku. Heimsóknir þeirra geta verið algjör plága eða ágætis skemmtun, allt eftir því hvernig á það er litið.
En ef marka má fréttatilkynningu sem birtist á vef mormóna í Bretlandi þá mega Íslendingar búast við enn tíðari heimsóknum frá þessum mönnum. Samkvæmt þessari fréttatilkynningu þá hefur verið ákveðið að endurvekja Ísland sem sérstakt svæði (e. district).
Þetta er sagt vera talsverður áfangi fyrir þjóðina. Enda hefur trúboðið ekki verið alveg til einskis. Í sömu fréttatilkynningu er fullyrt að vöxtur hafi verið stöðugur á Íslandi frá árinu 1945 og nú séu rétt tæplega 400 mormónar á Íslandi. En betur má ef duga skal, ef marka má fréttatilkynninguna.
Í fréttatilkynningunni er vitnað í Leif G. Mattsson, sem hefur farið fyrir trúboði í Kaupmannahöfn, en Ísland virðist hafa verið hluti af því svæði, þar til nú. „Ég veit að þetta er verk drottins. Tíminn fyrir Ísland, finnst mér, vera núna. Drottinn gerir það ómögulega mögulegt,“ er haft eftir Leif.