Eiríkur Rögnvaldsson, nestor í íslensku, hefur staðið í ströngu við tiltektir og eyðingar á síðu sinni Málspjall á facebook.
Í gær var sett á síðu hópsins innlegg sem Eiríkur eyddi fljótlega vegna þess að honum fannst það ekki eiga erindi. Innleggið var að formi til spurning en án nokkurra dæma þannig að útilokað var að svara henni eða ræða á vitrænan hátt, að sögn Eiríks.
„Það gerist alltaf öðru hverju að ég eyði innleggjum af ýmsum ástæðum – stundum vegna orðbragðs en oftast vegna þess að ég met þau ómálefnaleg af því að í þeim er lýst vanþóknun eða hneykslun á einhverju í máli eða málfari. Slík umræða á hér ekki heima eins og oft hefur komið fram. Yfirleitt láta höfundar þessara innleggja sér þetta lynda og átta sig á ástæðu eyðingarinnar, en í þetta skipti var höfundur ósáttur og skrifaði annað innlegg þar sem hann óskaði þess að vera tekinn úr hópnum,“ skrifar Eiríkur til skýringar á þræði sínum sem er mjög vel sóttur daglega og fjallar um íslenskt mál.
Mikill hiti getur skapast í kringum íslenskuna líkt og blaðamenn þekkja. Þeir verja kannski vikum í rannsókn á hneykslismáli. Þegar birting málsins verður opinber brjálast allt. Ekki út af hneykslinu heldur stafsetningarvillu, líkt og sá sem hér skrifar hefur sjálfur upplifað.
„Út frá þessu spratt sérkennileg umræða þar sem lögfræðingur sakaði mig um „óþolandi ritskoðun“,“ segir Eiríkur um það sem gerðist eftir að hann eyddi út innlegginu í gær.
Lögfræðingurinn sagði vinnubrögð Eiríks „ekki í samræmi við tjáningarfrelsisákvæði stjórnarskrárinnar“ sem hann vitnaði í:
„Ritskoðun og aðrar sambærilegar tálmanir á tjáningarfrelsi má aldrei í lög leiða.“
Af þessu tilefni segist Eiríkur þurfa að ítreka að hann stofnaði þennan hóp, er umsjónarmaður hans, og ræður hvað þar birtist.
„Engum er skylt að vera í hópnum og öllum hópverjum frjálst að segja sig úr honum hvenær sem þeim þóknast. Stjórnarskrárákvæði um tjáningarfrelsi eiga við um athafnir ríkisvaldsins eins og klausan „má aldrei í lög leiða“ sýnir glögglega – þau eiga ekki við um stjórnendur Facebook-hópa. Að halda því fram er í besta falli grátbroslegt.“