„Það voru fyrst og fremst forsenduákvæðin sem Samtök atvinnulífsins höfðu sett okkur úrslitakost með. Við í samninganefnd VR þurftum að taka afstöðu til þess hvort við værum tilbúin að fallast á þá nálgun og þá hugmyndafræði. Niðurstaðan var sú að við erum einfaldlega ekki tilbúin til þess.“
Þetta sagði Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR, í viðtali við RÚV en stéttarfélagið hætti í dag viðræðum við Samtök atvinnulífsins. Viðræður strönduðu á ólíkri sýn hvað varðar verðbólguviðmið. Að vísu var lítill sem enginn munur á þeirri sýn. VR vildi að hún yrði 4,72 prósent en SA undir 4,95 prósent.
Líkt og fyrr segir þá fullyrðir Ragnar Þór að SA hafi sett VR afarkost um þetta atriði. Á hinn boginn gefur Sigríður Margrét Oddsdóttir, framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, í skyn að viðræður hafi farið í hnút vegna ósveigjanleika VR.
„VR var búið að samþykkja launaliðinn og VR var líka búið að samþykkja það að nota verðbólguviðmið sem forsenduákvæði í þessum langtíma kjarasamningum. Það munaði 0,2 % á hugmyndum sem VR kynntu og svo því sem samkomulag náðist um,“ sagði Sigríður Margrét.