Sænska ríkissjónvarpið (SVT) braut gegn hlutleysisreglum sænskra fjölmiðla í umfjöllun sinni um átök Ísraela við Palestínumenn. Þetta er niðurstaða sænsku fjölmiðlanefndarinnar. Umfjöllun SVT um bakgrunn átakanna, sem sýnd var í fréttaþættinum Rapport, var samkvæmt nefndinn einhliða og stríddi gegn kröfunni um hlutleysi.
Innslag um sögulegan bakgrunn átaka Ísraela og Palestínumanna var sýnt í fréttaþættinum hinn 7. október síðastliðinn. Innslagið var birt í ljósi hryðjuverkaárása Hamas-samtakanna og hernaðarviðbrögðum Ísraela sem viðbragði við þeim. Síðan þá hefur árásarstríð Ísraela á Gaza kostað tæplega 30 þúsund Palestínumenn lífið, þar af yfir 12 þúsund börn. Í árásum Hamas létust 1.139 Ísraelar og ríkisborgarar annarra landa, og 253 voru teknir í gíslingu.
Í innslaginu í Rapport létu fréttamenn SVT hjá líða að nefna sögulegar staðreyndir um deilur Ísraela og Palestínumanna. Meðal annars tilgreinir fjölmiðlanefndin sænska sérstaklega að ekki hafi verið fjallað um hernám Ísraela á palistínsku landi og ekki heldur um landrán Ísraela. Af þeim sökum hafi umfjöllunin verið einhliða og telst hún ómerk.