„Það er óviðunandi til lengdar að byggja atvinnu- og innflytjendastefnu Íslands á stórtækum innflutningi fólks fyrir láglauna- og lágframleiðnistörf án fullnægjandi aðlögunar og inngildingar. Þannig verður til lagskiptur vinnumarkaður og tvískipt samfélag – þvert á grunngildi jafnaðarstefnunnar. Hraði og fjöldi skiptir máli og stjórnmálamenn geta haft áhrif á þróunina.“
Þetta segir Jóhann Páll Jóhannsson, þingmaður Samfylkingarinnar, í pistli sem hann birtir á Facebook. Hann vísar einnig í orð Kristrúnar Frostadóttur, formanns Samfylkingarinnar, í Sprengisandi á Bylgjunni í morgun. Þar benti hún á að málaflokkur innflytjenda snerist ekki eingöngu um flóttamenn. Kristrún benti meðal annars á að frá því að núverandi ríkisstjórn tók til starfa þá hefur fjöldi innflytenda tvöfaldast á Íslandi, úr 30 þúsund árið 2017 í yfir 70 þúsund í dag. Miðað við þær tölur þá eru flóttamenn líkt og dropi í hafi.
„Eins og Kristrún Frostadóttir bendir líka á er ekki hægt að gera umsækjendur um alþjóðlega vernd, sem er brot af þeim sem koma hingað á hverju ári, ábyrga fyrir því að samfélagsinnviðir hafa verið fjársveltir og að verndarkerfið er óskilvirkt og málsmeðferðartími langur,“ segir Jóhann Páll.
Það sé í raun kaldhæðnislegt að Sjálfstæðisflokkurinn vilji gera útlendingamál að helsta kosningamáli komandi kosninga, í ljósi þess að sá flokkur ber mesta ábyrgð á núverandi ástandi. Á þetta bendir Jóhann Páll og skrifar:
„Sjálfstæðisflokkurinn hefur haldið illa á málaflokknum og kostnaður farið úr böndunum á síðustu árum, m.a. vegna stjórnsýsluframkvæmdar sem er á skjön við það sem tíðkast á hinum Norðurlöndunum. Flumbrukennd meðhöndlun Venesúelaumsókna er skýrasta dæmið um þetta.
Annað dæmi um séríslenska framkvæmd er þjónustusviptingin sem mælt var fyrir um í útlendingalögum Jóns Gunnarssonar sem voru vond bæði frá sjónarmiði skilvirkni og mannúðar, og sem ríkisstjórnin gat ekki einu sinni komið sér saman um hvernig ætti að túlka og framkvæma.
Verkefnið er að skapa sterkt og skilvirkt verndarkerfi án þess að gefa afslátt af grundvallarmannréttindum. Það er góð jafnaðarstefna.“