Undanfarna mánuði hafa margir stjórnmálamenn, ekki síst úr röðum ríkisstjórnarflokkanna, haldið því fram að gífurleg aukning í fjölda flóttamanna sem sóttu um hæli á Ísland sé að valda því að allir innviðir hafi sprungið. Frá upphafi verið það verið nokkuð furðulegt útspil í ljósi þess að þessa aukningu má alfarið rekja til fólks sem ríkisstjórnin bauð að koma. Annars vegar fólk frá Venesúela, sem var liður í stuðningi ríkisstjórnarinnar við aðgerðir Bandaríkjastjórnar gegn ríkisstjórn Nicolás Maduro. Og svo hins vegar konur og börn að flýja stríðið í Úkraínu.
Stjórnmálaprófessorin Ólafur Þ Harðarson vekur athygli á þessu á Facebook og spyr einfaldlega þá sem hafa haldið þessu fram: telja þau að það hafi verið mistök að veita úkraínskum konum og börnum vernd hér á landi? Hann byrjar á því að fara yfir helstu staðreyndir málsins og skrifar:
„Í umræðu um hælisleitendur hafa margir nefnt fjölda umsækjenda síðustu tvö ár. Þeir voru 4520 árið 2022 og 4155 árið 2023 og hafði fjölgað mikið frá 2021. Færri hafa leitt hugann að því hversu margir hafa fengið vernd – í samræmi við núgildandi regluverk. Nú eru tölur um þetta á greinargóðri upplýsingasíðu Útlendingastofnunar. Árið 2023 voru umsóknir frá Úkraínu 1618. Veitt mannúðarleyfi vegna fjöldaflótta frá Úkraínu voru 1560. Árið 2023 voru umsóknir frá Venesúela 1586. Hæli fengu 58, en 783 umsóknum var synjað. Margir bíða enn efnislegrar afgreiðslu, en vafalítið munu flestir þeirra fá synjun Árið 2023 voru umsóknir frá öllum öðrum löndum 951. 572 slíkar umsóknir fengu efnislega meðferð, 218 var hafnað en 354 fengu vernd.“
Ólafur segist vilja vita hvort þeir stjórnmálamenn sem hafa haldið þessu fram, muni því leggjast gegn því að fleiri börn og konur komi hingað. „Margar umsóknir bíða afgreiðslu. Flestir virðast sammála um að seinagangur við afgreiðslu umsókna sé óviðunandi, ekki síst fyrir hælisleitendur, en líka vegna kostnaðar. Kúfurinn í óafgreiddum umsóknum er frá Venesúelabúum, sem sóttu um hæli í stórum stíl vegna þess að um árabil fengu þeir hæli af mannúðarástæðum vegna fjöldaflótta eins og Úkraínumenn. Nú hefur því verið breytt og umsóknum mun væntanlega fækka stórlega,“ skrifar Ólafur og bætir við að lokum:
„Sem sagt: Árið 2023 fengu 1618 Úkraínumenn vernd, 58 Venesúelabúar og 354 frá öðrum löndum. Þeir sem vilja fækka þeim sem fá vernd miðað við 2023 þurfa að svara tveimur spurningum:
1. Vilja þeir hætta að veita Úkraínumönnum mannúðarvernd vegna fjöldaflótta (1618 árið 2023)?
2. Vilja þeir fækka fólki frá öllum öðrum löndum sem fá vernd (412 árið 2023)?“