„Ég er verulega ósátt,“ segir Elva Dögg Hafbeg Gunnarsdóttir uppistandari með meiru, en hún hefur gert garðinn frægan í leikhúsum svo nokkuð sé nefnt, enda fyndin manneskja.
Henni finnst þó ekki fyndið að í gær sótti hún um 100.000 króna yfirdrátt hjá Íslandsbanka sem hún hefur verið í viðskiptum við síðan hún var 13 ára. Hundur Elvu Daggar þarf að fara í tanntöku. Það kostar aukaleg útlát og hún var að vonast til að bankinn gæti hlaupið í skarðið.
„Ég hef ekki verið með yfirdrátt í mörg ár, ekki verið í vanskilum í mörg ár heldur, með allt mitt í greiðsluþjónustu og mjög fína lánshæfniseinkunn hjá Creditinfo, svo við tölum nú ekki um að ég bý í minni eigin íbúð sem hægt er að gera fjárnám í ef ég skildi ekki standa í skilum með þessa svimandi háu upphæð,“ segir Elva Dögg á facebook til að taka af öll tvímæli með að hún er traustsins verð.
„En Íslandsbanki virðist standa og falla með þessum 100.000 krónum og synjar beiðni minni,“ segir hún. „Það er munur að geta stundað glæfraleg fjármálaviðskipti og fá milljónir og jafnvel milljarða afskrifaða. Það er svo sannarlega ekki það sama, Jón, eða Séra Jón… Takk fyrir ekkert.“
Geta má þess að hagnaður Íslandsbanka sem enn er að hluta í eigu þjóðarinnar nam árið 2023 um 24,6 milljörðum króna.
Íslandsbanki segist ekki tjá sig um mál einstakra viðskiptavina.