Ásthildur Lóa Þórsdóttir, þingkona Flokki fólksins, hrakti rétt í þessu ummæli seðlabankastjóra sem hafði á fundi þingnefndar í morgun sagt að almenningur gæti skipt yfir í óverðtryggð lán úr verðtryggðum innan ákveðins tíma.
Þingkonan sagði á fundinum við Ásgeir Jónsson seðlabankastjóra að svo miklar hækkanir hefðu orðið á lánum að ljóst væri að fjöldi fólks myndi ekki standast greiðslumat vegna vaxtahamfaranna undanfarið og rýrnandi eignarhlutar í húsnæði.
Seðlabankastjóri brást ekki með beinum hætti vil athugasemd Ásthildar Lóu.
Hann hafði áður sagt að krafa fólks um lægri vexti og minni verðbólgu væri meginkrafa almennings. Það geti leitt til nýrrar forgangsröðunar hjá kjósendum þessa lands sem og í kjarasamningum. Aðhald seðlabanka og ríkisstjórnar þurfi að verða harðara fyrir vikið til að halda verðbólgu í skefjum.
Innflutt vara hefur hækkað um 6,7 prósent á 12 mánaða grundvelli. Á sama tíma hefur verð innlendrar dagvöru hækkað um allt að 12 prósent. Samstöðin sagði í gær frá nýjum veruleika hér á landi, að fjöldi fólks sem áður átti pening til að fara á hársnyrtistofur lætur sér nú duga heimaklippingar.
„Það myndi gleðja okkur ef kjarasamningar myndu gera okkar starf auðveldara,“ sagði Ásgeir.