Hvíta húsið hefur fordæmt ummæli Donalds Trump, fyrrverandi forseta, sem sagði í gær að hann myndi hvetja Rússa til að gera „hvern fjandann sem þeir vilja“ ef þeir réðust inn í NATO-ríki sem ekki greiddi nægar upphæðir til varnarsamstarfs NATO.
Trump læt ummælin falla á kosningafundi í Suður-Karólínu í gær. Þar hélt hann því fram að hann hefði á einhverjum tímapunkti í forsetatíð sinni átt samtal við forseta „stórs ríkis“ um skyldu bandamanna til að koma hverjum öðrum til varnar.
Lýsti Trump þessum meintu samskiptum þannig að umræddur forseti hafi að sögn spurt hvort Bandaríkin myndu koma til aðstoðar ef Rússar réðust á landið, jafnvel þó ekki hefðu verið greiddar auknar fjárhæðir til NATO samstarfsins. Sagðist Trump hafa svarað með þessum orðum: „Nei, ég myndi ekki verja ykkur. Reyndar myndi ég hvetja þá til að gera hvern fjandann sem þeir vilja. Þið þurfið að borga.“
Í fordæmingu Hvíta hússins sagði að það að „hvetja til innrása morðóðra einræðisríkja á lendur helstu bandamanna okkur er hörmulegt og óhugnanlegt. Það ógnar öryggi Bandaríkjanna, stöðugleika á heimsvísu og efnahag okkar heima fyrir.“