Þjóðverjar hafa sett á fót herstöð í Litháen sem á að fæla Rússa frá því að ráðast að nýju á nágrannaríki sín. Gert er ráð fyrir að stöðin verði að fullu virk árið 2027 og þá muni verða þar um 5.000 hermenn. Fyrstu hermennirnir komu til Líthaén á mánudaginn og munu þeir vinna að uppsetningu herstöðvarinnar.
Þetta verður í fyrsta skipti sem Þjóðverjar setja upp varanlega herstöð og senda hermenn út fyrir landsteinana í ótímabundinn tíma, að því er þýski varnarmálaráðherran Boris Pistorius sagði. Markmiðið er, sagði Pistorius, að fæla Rússa frá nýjum árásum á borð við innrás þeirra inn í Úkraínu.
Í allt verða um 4.800 hermenn og um 200 borgaralegir starfsmenn í herstöðinni þegar hún verður að fullu virk. Tvö herfylki munu koma frá Þýskalandi en hið þriðja verður fjölþjóðlegt herfylki NATO-ríkjanna.
Landamæri Litháen liggja bæði að rússneska héraðinu Kalíningrad, við Eystrasaltið, og að Belarús sem er í nánu bandalagi við Rússland. Að mati yfirstjórnar þýska hersins gerir þetta Litháen að einna viðkvæmasta ríkinu á austurmörkum NATO. NATO-ríkin hafa löngum litið á Suwalki-hliðið svokallaða, landamæri Litháen og Póllands sem liggja á milli Kalíníngrad og Belarús, sem hvað veikastan blett í vörnum NATO.
Talsmaður stjórnarherrana í Kreml, Dmitry Peskov, sagði í yfirlýsingu að viðvera þýska hersins í Litháen myndi auka á spennu á svæðinu.