Tyrkneska hagstofan (TurkStat) birti niðurstöður tekju- og lífskjarakönnunar sem gerð var árið 2023 með hliðsjón af tekjutölum ársins 2022. Þar kemur fram að þau auðugu hafa aukið sinn hlut í þjóðarframleiðslunni á kostnað annarra í samfélaginu undanfarinn áratug.
Mikil verðbólga yfir langt tímabil virðist vera mjög skaðleg fyrir kaupmátt launafólks því kjarasamningar eru yfirleitt ekki gerðir með vísitölutengingum. Við Íslendingar þekkjum vel hvernig okkar verðtryggðu lán eru uppreiknuð á hverjum mánuði miðað við neysluvísitölu, ef laun launafólks væru tryggð með svipaðri reiknireglu er hugsanlegt að verðbólga myndi ekki virka sem ójöfnuðarhraðall, sem síðan kallar fram lífskjarakrísu hjá verka- og láglaunafólki.
Vaxandi efnahagslegur ójöfnuður, sem einnig er grundvöllur fyrir lögmæti baráttu verkalýðshreyfingarinnar, hefur valdið því að verkföll og mótmæli hafa fengið á sig kvika birtingarmynd eftir heimsfaraldur. Stríð NATO við Rússa í Úkraínu og árásir Ísraela á Gaza hafa auk þess aukið spennu og óstöðugleika.
Samkvæmt skýrslu TurkStat jókst hlutdeild auðugustu 20 prósentanna úr 45,9 prósentum árið 2013 í 49,8 prósent árið 2022. Hlutdeild þeirra tekjulægstu lækkaði úr 6,2 prósentum í 5,9 prósent.
Mynd: Verkfallsverðir Erciyas Steel Pipe