Verð á kakói hefur hækkað óhemjumikið á síðustu tólf mánuðum og hefur aldrei verið hærra en nú í febrúar 2024. Hagfræðingar spá því að verð muni haldast hátt út yfirstandandi ár.
Verð á kakói hefur ríflega tvöfaldast frá því í ársbyrjun árið 2023. Óhagstætt veðurfar, smygl og sjúkdómar sem herja á kakóplöntur eru sagðir helda ástæðan fyrir hækkuninni. Uppskera á kakói hefur brugðist verulega illa á Fílabeinsströndinni, þar sem um 40 prósent kakóbauna heimsins eru ræktaðar, og einnig í Gana sem stendur fyrir ræktun um fimmtungs heimsframleiðslunnar til viðbótar.
El Nino veðurfyrirbrigðið hefur haft mikla þurrka í för með sér í Vestur-Afríku og ofan á það hafa staðbundnir og árstíðabundnir þurrkar og mikill vindur einnig haft sitt að segja. Því hafa birgðir dregist saman og verð hækkað.
Búist er við að verð á súkkulaði haldi áfram að hækka, um 15 til 20 prósent á fyrri hluta ársins, og að hækkununum muni ekki linna. Að sama skapi reikna súkkulaði framleiðendur með því að eftirspurn muni dala.
Staðan er þegar farin að hafa mjög neikvæð áhrif á kakó iðnaðinn. Í Gana hafa fyrirtæki þurft að draga verulega úr starfsemi sinni og segja upp fólki.
Það er ekki bara súkkulaðiframleiðslan sem gæti orðið fyrir barðinu á kakó-skortinum. Kakó er notað í ýmsa aðra framleiðslu, til að mynda á lyfjum og snyrtivörum, svo verðhækkanir í þeim geirum eða skortur á aðföngum er líklegur.