42% finna mikið fyrir greiðslubyrði námslána

Verkalýðsmál 21. mar 2024

Þriðjungur félagsfólks aðildarfélaga BHM (31%) sem greiða af námslánum sínum árið 2024 finna mikið fyrir greiðslubyrði námslánanna í útgjöldum heimilisins og 11% segja hana verulega íþyngjandi, samkvæmt Lífskjararannsókn BHM. Eiga fleiri erfitt með afborgarnir námslána nú en gerðu árið 2022 þegar 25% fundu mikið fyrir afborgunum námslána sinna og tæp 7% sögðu greiðslubyrðina verulega íþyngjandi.

Í rannsókninni er fólk spurt um ráðstöfunartekjur heimilisins í venjulegum mánuði, þ.e. laun og bætur og allar aðrar reglulegar tekjur, eftir skatt. Hlutfall þeirra sem finna mikið fyrir greiðslubyrði námslána, segja hana verulega íþyngjandi eða ráða ekki við greiðslurnar er hæst hjá þeim sem hafa undir 600.000 í samanlagðar ráðstöfunartekjur um venjuleg mánaðarmót (55%) og lægst hjá þeim sem eru með 1,2 milljónir eða meira (30%). Þá finna leigjendur (52%) meira fyrir námslánunum en fólk í eigin húsnæði (41%) og húsnæðiseigendur með húsnæðislán (42%) meira en þau sem eiga húsnæði sitt skuldlaust (33%). Greiðslubyrði námslána bítur líka meira hjá einstæðum foreldrum en hjá foreldrum í sambúð eða hjónabandi, en 62% einstæðra foreldra með húsnæðislán eða á leigumarkaði finna mikið fyrir greiðslubyrði námslána á móti 41% foreldra í sambúð í sömu stöðu á fasteignamarkaði.

Námslánagreiðendur eiga erfiðara með að ná endum saman

Í rannsókninni var spurt „Hvernig gengur ykkur að ná endum saman með þeim tekjum sem þið hafið til ráðstöfunar?“ og eru svarmöguleikarnir mjög erfitt, nokkuð erfitt, erfitt, auðvelt, nokkuð auðvelt og mjög auðvelt. Séu fyrstu svarmöguleikarnir þrír flokkaðir saman þá svöruðu 42% svarenda á þá leið að erfitt væri að ná endum saman á móti 58% sem sögðu það auðvelt.

Sé þessi spurning skoðuð með tilliti til námslána kemur í ljós talsverður munur því 50% svarenda sem eru að greiða námslán á árinu kváðust eiga erfitt með að ná endum saman á móti 35% þeirra sem er ekki að greiða af námslánum. Myndin hér fyrir neðan sýnir svo hvernig barnafólki, á leigumarkaði eða með húsnæðislán, gengur að ná endum saman eftir því hvort það er að greiða námslán. Áhrif greiðslubyrði námslána sést glöggt á þessum svörum því 82% einstæðra foreldra sem eru að greiða námslán segja erfitt að ná endum saman á móti 66% einstæðra foreldra sem ekki eru með námslánagreiðslur. Minni munur, en tölfræðilega marktækur þó, er á pöruðum foreldrum í sömu stöðu á fasteignamarkaði því 51% þeirra sem greiða námslán eiga erfitt með að ná endum saman á móti 44% hjóna sem eru ekki með námslán.

Eftirlaunaþegar enn að greiða námslán

Átta af hverjum tíu félagsmönnum BHM hafa einhvern tímann tekið námslán. Af þessum hópi munu 55% greiða af námslánum sínum á þessu ári, 43% hafa þegar greitt upp námslánin sín og 2% eru í námi eða greiða ekki af námslánum sínum á árinu af öðrum ástæðum. Á myndinni hér fyrir neðan má svo sjá hvernig svör lántakenda námslána við spurningunni „Greiðir þú af námslánum árið 2024?“ skiptast hlutfallslega eftir aldursbilum. Eins og sjá má fer hlutfall námslánagreiðenda eftir aldri, eins og von var, er lágt í yngsta hópnum enda mörg enn í námi og svo hæst í aldurshópunum 25-34 ára þar sem átta af hverjum tíu lántökum munu greiða af námslánum sínum á árinu. Eftir það fer hlutfallið lækkandi og endar í einum af hverjum fimm lántakendum á aldrinum 65-74 ára.

Um lífskjararannsókn BHM

Lífskjararannsókn BHM var lögð fyrir félagsfólk í 22 aðildarfélögum BHM í upphafi ársins. Sendu aðildarfélögin könnunina út, hvert á sitt félagsfólk. Samtals var könnunin send á 16.563 einstaklinga og bárust 5.730 svör sem gefur 34% svarhlutfall. Niðurstöður eru vegnar eftir kyni og aðildarfélagi. Niðurstöður frá árunum 2022 og 2020 eru fengnar úr kjarakönnunum BHM sem Maskína lagði fyrir samtökin þessi ár. Þær tölur eru einnig vegnar með tilliti til kyns og aðildarfélags.

Frétt af vef BHM.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí