Rússneski herinn gerði í gær einhverja umfangsmestu árás sína á Kænugarð svo vikum skiptir og þá fyrstu í sex vikur Rússar skutu þá tugum flugskeyta á úkraínsku höfuðborgina, sem meðal annars ollu skemmdum á sex skólum og leikskólum. Á annan tug Úkraínumanna særðist í árásinni.
Árásin hófst snemma í gærmorgun og skutu Rússar 31 flugskeyti á borgina. Loftvarnarkerfi Úkraínumanna var beitt og kom það í veg fyrir frekara tjón en öll flugskeytin voru skotin niður.
Íbúðarhúsnæði, skólar og leikskólar og aðrir innviðir urðu engu að síður fyrir töluverðum skemmdum og þá kviknaði í byggingum þegar brak úr flugskeytunum lenti á þeim. Um 25 þúsund manns máttu leita skjóls á neðanjarðarlestarstöðvum meðan loftvarnarflautur vældu í þrjá klukkutíma samfleytt. Af þeim voru um þrjú þúsund börn.
Árásin er sú öflugasta sem Rússar hafa gert vikum saman, en loftárásir sem þessar hafa verið fátíðar síðustu vikur. Telja hernaðarsérfræðingar tvennt koma þar til, annars vegar nýafstaðnar forsetakosningar í Rússlandi en hins vegar skortur Rússa á skotfærum. Þó er búist við því að loftárásir sem þessi verði nú tíðari.