Afhjúpar frétt Morgunblaðsins um mannfall í Gaza sem þvælu lið fyrir lið

Í Morgunblaðinu í gær birtist frétt sem hefur vakið hörð viðbrögð víða en þar er gerð tilraun til þess að gefa í skyn að færri en 30 þúsund manns hafi verið myrt í Gaza undanfarnar vikur. Fréttina skrifar Andrés Magnússon, yfirlýstur stuðningsmaður Ísrael og innmúraður Sjálfstæðismaður. Í stuttu máli þá vísar Andrés í grein eftir mjög vafasaman fræðimann vestanhaf sem telur sig geta véfengt fjölda myrta í Palestínu og notar til þess það sem í daglegu tali er kallað talnaleikfimi.

Í raun má segja að þessi tilraun Morgunblaðsins til að véfengja fjölda myrtra væri hlægileg ef hún væri ekki um svo alvarlegt málefni. Meira að segja bandarískir fjölmiðlar svo sem Time, sem vanalega eru mjög hliðhollir Ísrael, gangast við því að fjöldi myrtra sé vel yfir 30 þúsund.

Í pistli sem Anna Katrín Einarsdóttir birtir á Facebook fer hún yfir frétt Morgunblaðsins lið fyrir lið en óhætt er að segja að hún sýni vel fram á fréttin jarðri helst við að vera helber lygi. Hér fyrir neðan má lesa pistil hennar í heild sinni.

***

Í gærmorgun stóð ég í makindum mínum inn í eldhúsi að drekka fyrsta kaffibolla dagsins á meðan dóttir mín, södd og sæl, var að lesa bók með pabba sínum inn í stofu.

Ég var með stillt á Bylgjuna, hlustandi með öðru eyranu, þegar ég heyri að þau eru að tala um tölu látinna á Gasa. Eða öllu heldur, þau voru að véfengja tölur látinna sem að heilbrigðisráðuneyti Hamas hefur gefið frá sér. Það hafi komið fram í grein Morgunblaðsins að ekki væri hægt að treysta þeim tölum.

„Vafi um mannfall á Gasa” Tölfræðirannsókn á gögnum heilbrigðisráðuneytis Hamas um mannfall í stríðinu á Gasa­svæðinu bendir til þess að tölur um mannfall þar séu í besta falli óáreiðanlegar. … Samkvæmt grein tölfræðiprófessors við Pennsylvaníuháskóla eru tölur um heildarfjölda fallinna íbúa á Gasa og samsetningu þeirra alltof reglulegar til þess að geta endurspeglað rauntölur.“

Höfundur greinarinnar, Andrés Magnússon, er að vitna í hugvekju sem að prófessorinn Abraham J. Wyner birti í veftímaritinu Tablet.

Abraham J. Wyner kennir tölfræði á grunnstigi við Wharton skóla við Pennsylvaníu háskóla. Meðfram kennslunni birtir hann mikið af greinum um tölfræði tengda íþróttum og fjallar um hvernig íþrótta iðnaðurinn geti nýtt sér kraft tölfræðinnar í hljóðvarpinu “Moneyball Wharton”. Hann hefur semsagt hingað til ekki birt mikið af tölfræðilegri greiningum af dauðsföllum á átakasvæðum.

Bandaríska “tímaritið” er vefritið Tablet sem sérhæfir sig í umfjöllunum um allt sem tengist gyðingum

Tabet is a Jewish magazine about the world.

Þar má finna fullt af hugvekjum sem upphefja Zionisma. Fann ég meðal annars grein sem fjallaði um þáttöku Hatara í Eurovision þar sem höfundur ásakar meðlimi hljómsveitarinnar um nasisma. (ef þið hafið áhuga á að lesa greinina þá heitir hún The Roots of Elite European Anti-Zionism: Begins with an ‘N’ and ends with an ‘I’).

Því er auðséð að ekki sé um neina fræðilega rannsókn að ræða og að miðillinn sem að birtir greinina hefur mikilla hagsmuna að gæta.

Í greininni staðhæfir Abraham að heilbrigðisráðuneyti Hamas hljóti að vera að nota vitlaus líkön til þess að reikna tölur látinna þar sem tölurnar séu  ekki að hegða sér “eðlilega” – þær hegði sér ekki í takt við nein þekkt tölfræðilíkön.

Gögnin sem Abraham styðst við eru tölur frá 26. október til 10. nóvember 2023. 16 daga úrtak. 

Mér finnst áhugavert að Andrés taki þessum vangaveltum Abrahams sem haldbærum staðreyndum.

Ég er enginn vísindamaður, en mig grunar að rétt rúmlega tveggja vikna úrtak sé aðeins of lítið til þess að hægt sé að kalla þetta rannsókn, hvað þá marktæka rannsókn.

Abraham segir að það sé ekki eðlilegt að tölur rísi svona jafnt og þétt. Það meiki heldur engan sens að hlutfall látinna karlmanna sé svona lágt.  Hann bendir á að ef heilbrigðisráðuneyti Hamas fari með rétt mál þýði það að Ísraelsher sé engu nær markmiði sínu að útrýma Hamas liðum.

Í hans orðum:

“either Israel is not successfully eliminating Hamas fighters or adult male casualty counts are extremely low.”

Mér finnst Abraham hitta þarna ákveðinn nagla á höfuðið, þó ég efist um að það hafi verið naglinn sem hann hafði í huga.

Miðað við þá útrýmingu sem við erum vitni af þá lítur út fyrir að Ísraelsher sé slétt sama um að ná Hamas liðum, markmiðið sé að jafna Gasa og alla Palestínubúa við jörðu.

Ég þarf ekki að styðjast við tölfræðilíkön til þess að vita að mannfallið á Gasa er stjarnfræðilega hátt og á mælikvarða sem við höfum ekki séð áður. Tölurnar sem birtast á hverjum degi verða seint flokkaðar sem eðlilegar.

Það vantar ýmislegt inn í þessi líkön hans Abrahams. Ég efa að hann hafi tekið með í reikninginn öll þau sem eru að deyja úr hungri, þar sem Ísrael neitar að hleypa neyðaraðstoð í gegn.

Mæðurnar sem horfa á kornabörn sín þorna upp og svelta því þeim vantar næringur til þess að framleiða brjóstamjólk.

Öll þau sem hafa misst útlimi og eru nú að deyja vegna sýkingar sem auðvelt væri að lækna ef að Ísrael myndi hleypa viðeigandi hjálpargögnum í gegn.

Fólk sem er með krabbamein og hefur ekki aðgang að lyfjameðferð því að Ísrael er búið að ráðast á alla spítala á Gasa.

Hvað þá fólk með nýrnasjúkdóma sem þyrfti að komast í blóðskiljun.

Ég stórefa að daglegar tölur látinna frá fyrri þjóðarmorðum hafi “hagað sér eðlilega” eða í samræmi við einhver tölfræði líkön. En Abraham minnist engu orði á það, og Andrés veltir því heldur ekki fyrir sér.

Í gegnum árin hafa tölur frá heilbrigðisráðuneyti Hamas reynst sannar og innan skekkjumarka. Abraham reynir að skrifa sig í kringum þá staðreynd með því að benda á ásakanir Ísraels á hendur UNWRA, þrátt fyrir að Ísrael hafi enn ekki birt nein sönnunargögn sem styðja þær ásakanir né hleypt óháðum aðilum að til þess að framkvæma sjálfstæða rannsókn á þeim ásökunum.

Andrés botnar greinina á þá leið að samkvæmt tölum sem Ísrael hefur birt um hlutfall látinna (þar sem um 100% falinna karlmanna eru flokkaðir meðal meðlima Izz ad-Din al-Qassam hersveitarinnar) hljóti hlutfall látinna að vera nær 1:1 en ekki 4:1 eins og tölur frá heilbrigðisráðuneyti Hamas benda til.

Það séu voða flottar tölur og þess vegna hljótum við að sjá að það sé ekkert þjóðarmorð í gangi.

“Ef sú er raunin, væri það til marks um að Ísraelsher fari með ýtrustu gát í hernaðinum, en hvort heldur er, þá blasir við að tal um þjóðarmorð stenst enga skoðun.”

Mér finnst áhugavert að Andrés fái að koma með slíka yfirlýsingu byggða á svo þunnri “rannsókn”

Og hvergi kemur fram í grein Andrésar hvaða hagsmuna höfundur greinarinnar í Tablet hefur að gæta eða hvers eðlis miðillin er. Abraham stóð ekki einn að hugvekju sinni heldur fékk aðstoð frá Salo Aizenberg. Salo Aizenberg er stjórnarmeðlimur hjá samtökunum HonestReporting,  samtök sem einbeita sér að vakta fjölmiðla og eru óvægin við að kalla hvern þann sem gagnrýnir Ísrael gyðingahatara.

Í grein Andrésar fær orðið rannsókn að standa óáreitt þar sem  frekar mætti skrifa að standa: vangaveltur Zionista sem vill svo til að er prófessor í tölfræði.

Eftir hverja einustu frétt þar sem vitnað er í dauðsföll á Gasa þá bætir Moggin við – samkvæmt Hamas. Og alltaf er heilbrigðisráðuneyti Gasa aðeins kallað Hamas. Heilbrigðisráðuneyti Hamas er ekki það sama og Izz ad-Din al-Qassam hersveitin. 

Mér finnst áhugavert að þessi grein Andrésar fái að standa án nokkurra neðanmálsgreina á meðan allar upplýsingar frá Palestínu eru dregnar í efa.

Ef ekki væri fyrir samfélagsmiðla væri mögulega auðvelt að trúa þessari grein.

En í huga mínum eru brenndar myndir sem ég mun alrei losna við. Sárustu augnablik sem nokkur manneskja getur upplifað.

Sem Palestínubúar þurfa að streyma svo við trúum þeim.

Þau fá ekki einu sinni rými til að syrgja.

Þau þurfa að deila sínum viðkvæmustu augnablikum með heiminum í von um að við sýnum þeim mannúð og samkennd.

Mig grunar að ef rykið fær einhvern tímann að falla á Gasa og hægt verður að sannreyna tölur myrtra þar þá munum við vissulega sjá óeðlilegar tölur sem eru ekki í takt við nokkurt tölfræðilíkan sem búið hefur verið til af einhverjum prófessor við einhvern háskóla.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí