„Ég vil fá Baldur Þórhallsson sem næsta forseta Íslands. […] Það er ekki til betri maður í djobbið. Og ekki skemmir hvað hann er vel giftur. Felix Bergsson þekki ég betur en flestir aðrir. Ég þekki enga manneskju sem er réttsýnni, skemmtilegri, víðsýnni, hlýlegri og heilsteyptari – nema kannski Baldur Þórhallsson.“
Þetta skrifar Gunnar Helgason leikari á Facebook en hann bætist nú í ört vaxandi hóp manna sem hafa skorað á aðra menn að bjóða sig fram til forseta. Flestir hafa látið duga að skrifa stöðufærslu um þann sem þeir vill helst sjá sem næsta forseta. En Gunnar gengur skrefinu lengra og hefur stofnað sérstakan hóp utan um áskorun sína. Sá hópur telur nú ríflega tíu þúsund manns.
Ekki er þó allir einlægir stuðningsmenn Baldurs og Felix í hópnum. Nokkrir hafa notað tækifærið og deilt hommahatrinu sínu með meðlimum hópsins. Einn skrifar til að mynda í dag upp úr hádegi: „Höfum við nokkuð að gera við hommapar á Bessastaði. Erum við ekki búin að innvinna okkur næga kynvillingafrægð.“
Þetta innlegg hefur vægast sagt fallið í grýttan jarðveg. En Gunnar hvetur stuðningsmenn Baldurs og Felix til þess að láta hommahatara ekki espa sig upp. Hann skrifar: „Elsku vinir. Einn eða tveir hafa skrifað hér í hópinn einhverja drulluvitleysu á móti strákunum okkar og hommum almennt. Við tökum þessum skrifum ekki illa. Svörum af kærleika en ekki með skítkasti. Skítkast er vatn á myllu kölska. Ást og friður.“