MAST stöðvar þjálfun á hestum vegna kvikmyndaframleiðslu – Alvarleg atvik
Matvælastofnun hefur tímabundið stöðvað sérstaka þjálfun á hestum vegna þátttöku í kvikmyndaframleiðslu. Er það gert vegna alvarlegra atvika sem sjást á myndböndum sem stofnuninni hafa borist, og vísbendinga sem komu fram við eftirlit stofnunarinnar í gær.
Þetta kemur fram í tilkynningu frá stofnuninni sem birt var í morgun. Þar segir að starfsemin verði stöðvuð meðan ítarlegri rannsókn fari fram og þar til að kröfur til úrbóta verði uppfylltar.
Guðni Halldórsson, formaður Landssambands hestamannafélaga, birti í gær á Facebook-síðu sinni myndband af þjálfun hests. Á myndbandinu sést að beislisbúnaður hestsins er ólöglegur, hann er bundin niður í hnakk eða gjörð sem setur óeðlilega sveigju á háls og þá eru keðjur á beislinu sem ekki eru heimilar. Sömuleiðis er hesturinn sleginn í makkann og honum riðið með offorsi. Hver sem hefur nokkra minnstu þekkingu á hestamennsku sér að um klárt dýraníð er að ræða.
Guðni segir í færslu sinni að hann hafi fengið símtal í hádeginu í gær þar sem honum var greint frá illri meðferð á hestum í kvikmyndaverkefni. Hann hafi þá farið í símann og hringt í fjölda fólks til að leita upplýsinga og í framhaldinu sent tilkynningu til MAST þar sem hann krafðist tafarlausra aðgerða.
„Um kaffileitið skilst mér að búið hafi verið að stoppa starfsemina og rétt síðar fékk ég upplýsingar um að allir í hinu erlenda kvikmyndatökuliði sem tengdust málinu hafi verið reknir og muni hverfa af landi brott.
Svona lagað má aldrei líðast og vona ég svo innilega að það fólk sem svona fer með skepnur verði dregið til ábyrgðar og fái ekki að halda áfram iðju sinni í öðrum löndum. En það er víst ekki í mínum höndum. Aðal atriðið í dag var að stoppa þessa illu meðferð strax,“ skrifar Guðni.