„Lausaganga eða öllu heldur ,,óreiðuganga” kinda í Þverárhlíð eykst nú dag frá degi. Um er að ræða óbornar kindur, slasaðar kindur og kindur með ómörkuð eða ómerkt lömb,“ skrifar Steinunn Árnadóttir og birtir myndirnar sem sjá má hér fyrir ofan og neðan. Steinunn, sem er hestakona og organisti en einnig Vestlendingur ársins í fyrra, hefur verið iðin við að benda slæman aðbúnað dýra á bænum Höfða í Borgarfirði.
Hún segir að ekki verði betur séð en að MAST sé að vernda búið. „Matvælastofnun hefur á heimasíðu sinni og í fréttum tilkynnt að Hryllingsbúið sé undir þeirra verndarvæng. Því sendi ég Matvælastofnun póst áðan (16.maí) og óskaði eftir að þessar kindur fengu að njóta réttar síns samkvæmt lögum um velferð dýra, og væri komið til aðstoðar,“ segir Steinunn en hún segir að meðfylgjandi myndir hafi verið teknar í morgun.
Að hennar sögn má sjá á þeim: „Ein prúð elska er með mikið slasað auga og óskaði ég sérstaklega eftir að hún fengi dýralæknaaðstoð. Ég leyfi ykkur, vinir mínir, að fylgjast með hvort vinum okkar máleysingjunum verði komið til hjálpar.“