„Hryllingssagan á Höfða: Móðir stendur yfir litla lambinu sínu, að byrja að fá júgurbólgu…“ Þetta skrifar Steinunn Árnadóttir og birtir myndirnar sem sjá má hér fyrir ofan og neðan. Þetta er ekki í fyrsta skiptið sem Steinunn vekur athygli á bænum Höfða í Borgarfirði. Raunar hefur slæmur aðbúnaður dýra á Höfða verið opinbert leyndarmál í sveitinni í ríflega 15 ár.
Vísir fjallaði um bæinn í fyrra en ekki síst furðulegt sinnuleysi bæði Matvælastofnunnar og sveitarstjóra. Dýrin eru sögð ráfa um sveitina vannærð. Mannlíf fjallið einnig um bæinn í fyrra, en einn ábúenda á Höfða, Þórunn Bergþórsdóttir, gaf lítið fyrir ásakanir um dýraníð í viðtali. Hún gaf þær skýringar að regluleg myndbirting fyrrnefndrar Steinnar af dýrunum á Höfða væri ekkert annað en aðför.
„Það er enginn fótur fyrir þessu og þessi kona er biluð. Hún er athyglissjúk og það er bara enginn fótur fyrir þessu. Ég á bara erfitt með að koma orðum að þessu sko. Matvælastofnun er búin að skoða allt hjá okkur og það er allt í fínu lagi,“ sagði Þórunn í fyrra.
Þó er ljóst að það er ekki einugis Steinunni sem blöskrar ástandið á dýrunum. „Ég sit hér og græt að vanda yfir þesum hryllingi. Við hjónin eigum kindur og nú lömb. Þau fá ekki að þjást af neinum meinum og deyja án þess að allt sé gert til að bjarga þeim ef eittthvað kemur upp […]Á Höfða hefði þetta farið öðruvísi í svona tilfelli. Öll hefðu þau dáið og öllum verið sama því enginn kom til að hjálpa,“ segir til að mynda ein kona í athugasemd við nýjustu færslu Steinunnar.
Fleiri eru augljóslega hneykslaðir á ástandinu og margir spyrja hví ekkert er gert. En að sögn Steinunnar það deila eftirlitsmenn ekki þeirri skoðun. Hún úrskýrði það svo í fyrrnefndri frétt á Vísi í fyrra:
„Þetta er undir eftirliti en það eru engar athugasemdir gerðar. Núna fyrir stuttu í sauðburði fór eftirlitsmaður að skoða aðbúnað dýranna. Hann gerði athugasemdir við einn kálf, sem var undan útigangskú, en engar aðrar athugasemdir. Þarna eru kindur í tveimur reifum og þær eru grindhoraðar og ekkert húsaskjól fyrir þær. Og hann gerir engar athugasemdir við það. Kindurnar geta ekki farið sjálfar úr reifunum, þú þarft að klippa þær úr reifinu. Þegar þú ert með kindur ber þér skylda að sinna þessu.“