Fyrirhuguð úthlutun lóða við Vatnsendahvarf í Kópavogi uppfyllir ekki skuldbindingar sveitarfélagsins þegar kemur að húsnæðismálum. Bæði í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og í gildandi aðalskipulagi Kópavogsbæjar er tilgreint að eitt markmiða sé fjölbreyttur húsnæðismarkaður sem uppfyllir þarfir íbúða og að huga verði sérstaklega að framboði á húsnæði á viðráðanlegu verði. Engar þeirra 184 lóða sem fyrirhugað er að bjóða út eru skilyrtar fyrir húsnæði á viðráðanlegu verði, heldur verður þeim úthlutað til hæstbjóðenda.
Þetta kemur fram í bókun fulltrúa minnihlutans í Kópavogi við afgreiðslu bæjarráðs á fyrirhuguðum úthlutunum á fundi síðastliðinn fimmtudag. Þar kemur fram að í húsnæðisáætlun Kópavogsbæjar sé greining á þörfum ólíkra hópa í sveitarfélaginu. Þar kemur fram að 35 prósent skattgreiðenda í sveitarfélaginu séu undir tekju- og eignamörkum, og því þyrfti að skipuleggja uppbyggingu með þeim hætti að þriðjungur húsnæðis henti þeim íbúum bæjarins.
Gengur gegn húsnæðisáætlun, rammasamningi og heimsmarkmiðum SÞ
Þá segir enn fremur í áætluninni að markmið bæjarins sé að leitast við að tryggja fjölbreytt framboð húsagerða og búsetukosta fyrir alla félagshópa, og að allir geti orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði. „Þá er m.a. í forgangi að auka framboð á litlum og ódýrum fasteignum, auðvelda fyrstu kaup og fjölga íbúðakostum, m.a. með samstarfi við byggingaraðila um uppbyggingu minni íbúða sem sveitarfélagið hefði forkaupsrétt að,“ segir í bókun fulltrúa minnihlutans.
Fulltrúar minnihlutans nefna einnig að bæjarstjórn Kópavogs hafi árið 2018 ákveðið að innleiða heimsmarkmið Sameinuðu þjóðanna. Meðal þeirra er markmið sem snýr að húsnæðismálum þar sem segir meðal annars að eigi síðar en árið 2030 geti allir orðið sér úti um fullnægjandi og öruggt húsnæði á viðráðanlegu verði.
Enn fremur bendir minnihlutinn á að sameiginlegu átaki ríkis og sveitarfélaga hafi verið undirritaður rammasamningur til þess meðal annars að mæta þeim hópi sem hefur átt erfitt með að komast inn á húsnæðismarkaðinn. Er þar horft bæði til fyrstu kaupenda og til tekju- og eignalægri hópa. Þar er gert ráð fyrir að að 30 prósent nýrra íbúða verði hagkvæmar íbúðir á viðráðanlegu verði, sem byggðar eru með stofnframlögum frá ríki og sveitarfélögum eða uppfylla skilyrði um hlutdeildarlán.
„Sú tillaga að úthlutunarskilmálum, sem hér liggur fyrir, tekur ekkert mið af ofangreindum yfirlýsingum sem byggjast á þeirri reynslu að markaðurinn hefur ekki getað leyst þær fjölbreyttu þarfir, sem ungir, tekjulágir, námsmenn og fleiri hópar samfélagsins hafa. Kópavogsbær hefur ekki staðið að almennri lóðaúthlutun í 9 ár og nú er tækifærið til að leiðrétta þá skekkju, sem orðið hefur með uppbyggingu fjárfesta á þróunarreitum þar sem arðsemiskrafa er leiðarljósið,“ segir í bókun fulltrúa minnihlutans.
Myndi kosta niðurskurð, skattheimtu eða lántökur segir meirihlutinn
Fulltrúar Framsóknarflokks og Sjálfstæðisflokks, sem mynda meirihluta í Kópavogsbæ, gagnbókuðu á fundinum. Þar segir að um sé að ræða fyrstu lóðaúthlutunina af nokkrum í Vatnsendahvarfi og skipulag hverfisins geri ráð fyrir fjölbreyttu framboði húsnæði. Í úthlutunarskilmálunum birtist markmið aðalskipulagsins um félagslega blöndun, meðal annars með því að Kópavogsbær krefjist forkaupsréttar á allt að 4,5 prósentum allra byggða íbúða, undir félagslegt húsnæði.
„Meiri- og minnihluta greinir á um leiðir að því marki hvernig sem flestir geti eignast þak yfir höfuðið. Eins og kemur fram í bókun minnihlutans hugnast þeim að handstýra úthlutuninni og niðurgreiða húsnæði með lóðaúthlutunum til óhagnaðardrifinna leigufélaga. Ekki er gerð grein fyrir því, í bókun minnihlutans, hver áhrifin yrðu af slíkum lóðaúthlutunum á fjárhag sveitarfélagsins, en hætt er við að það myndi birtast í niðurskurði á þjónustu til bæjarbúa, auknum álögum eða lántökum,“ segir í bókun meirihlutans.
Svívirðilegt að Kópavogur skili endurtekið auðu
Sigurbjörg Erla Egilsdóttir, bæjarfulltrúi Pírata í Kópavogi, segir í samtali við Samstöðina að með afgreiðslu meirihlutans sé að tapast gullið tækifæri til að leiðrétta þá skekkju sem orðin er í bænum varðandi íbúðaframboð. „Skekkju sem orðið hefur með uppbyggingu fjárfesta á þróunarreitum þar sem arðsemiskrafa er ein höfð að leiðarljósi. Meirihlutinn tekur hér ekkert mið af skuldbindingum, meðal annars gagnvart lögum, sem byggja á þeirri reynslu að markaðurinn hefur ekki getað leyst þær fjölbreyttu þarfir sem ungir, tekjulágir, námsmenn og fleiri hópar samfélagsins hafa,“ segir Sigurbjörg.
Sigurbjörg segir að svör meirihlutans við gagnrýni hennar hafi meðal annars verið þau að ekki væri skylt að uppfylla þessi markmið í hverri úthlutun. Byggja eigi um 500 íbúðir við Vatnsendahvarf og því eigi eftir að úthluta ríflega 300 íbúðum til viðbótar. Sigurbjörg bendir hins vegar á að þær lóðir sem nú á að úthluta séu fjölbýlishúsalóðir. Ljóst sé að tekjulágir og fólk sem er að kaupa fyrstu íbúð muni ekki kaupa þær íbúðir sem verði byggðar á lóðum sem næst verði úthlutað, það er á parhúsa og einbýlishúsalóðum.
Þá séu níu ár síðan Kópavogsbær stóð síðast að almennri lóðaúthlutun, og því ljóst að mikil uppsöfnuð þörf sé orðin fyrir húsnæði sem henti einmitt tekjulægri hópum og fyrstu kaupendum.
„Mér finnst svívirðilegt að næststærsta sveitarfélag landsins skili endurtekið auðu þegar kemur að húsnæði fyrir tekju- og eignaminna fólk,“ segir Sigurbjörg.