„Ég held að það sé orðið augljóst að það er Sólveig Anna Jónsdóttir sem er fararstjóri á vegferð íslenskrar verkalýðshreyfingar inn í framtíðina. Ferðalagið er rétt að byrja og þeir sem í upphafi ferðar vildu fara í aðra átt og með hjálp Morgunblaðsins og annara miðla í eigu fjármagnseigenda héldu uppi stöðugum áróðri og árásum á hennar störf og hennar persónu virðast hafa gefist upp og þegja nú þunnu hljóði. Það er mikil gæfa fyrir íslenska verkalýðshreyfingu og reyndar á allan hátt fyrir íslenskt þjóðfélag að hafa svona leiðtoga.“
Þetta skrifar Reynir Böðvarsson, jarðskjálftafræðingur í Uppsölum í Svíþjóð, en hann er einn þeirra sem telur að Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, eigi sérstaklega skilið hrós fyrir að hafa landað kjarasamningum í gær. Samningunum hefur verið lýst sem tímamótasamningum sem muni leiða til hagsbóta fyrir flesta. Jafnvel aðalhagfræðingur Íslandsbanka hefur sagt að samningurinn muni auka líkur á vaxtalækkun hjá Seðlabankanum. Þó VR hafi ekki verið hluti af kjarasamningnum þá telur Reynir Böðvarsson að það þurfi ekki að þýða að samstarfi Ragnars Þórs og Sólveigar Önnu sé lokið.
„VR undir forystu Ragnar Þór Ingólfsson hafa vissulega kosið að fara eigin leið í bili og þar geta legið margar og gildar ástæður að baki en við vitum að báðir þessir leiðtogar í verkalýðshreyfingunni hafa getað unnið vel saman enda bæði strangheiðarleg og beinskeytt í öllum samskiptum,“ segir Reynir.