Ísland eitt af aðeins sjö löndum þar sem mengun er undir mörkum

Ísland er eitt af aðeins sjö löndum í heiminum öllum þar sem magn fíns svifryks er undir þeim mörkum sem Alþjóða heilbrigðismálastofnunin (WHO) hefur sett sem heilsuverndarmörk. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu IQAir, sem kortleggur mengun um heim allan. Hin löndin voru Ástralía, Eistland, Finnland, Grenada, Máritíus og Nýja-Sjáland.

Allar, utan ein, af þeim 100 borgum í heiminum þar sem mengun var verst á síðasta ári voru í Asíu, og flestar, eða 83, í Indlandi. Mengun í þessum borgum var í öllum tilvikum yfir tíu sinnum meiri en heilsuverndarmörk WHO. 

Sérstaklega er horft til magns fíns svifryks í rannsókninni en það eru agnir sem eru 2,5 míkrómetrar í þvermál, eða minni. Af um 7.800 borgum eða bæjum þar sem mælingar voru gerðar voru aðeins 9 prósent þeirra sem uppfylltu þau skilyrði sem WHO hefur sett, það er að magn fíns svifryks sé ekki yfir 5 míkrógrömmum á hvern rúmmetra. Fínt svifryk er fólki afar hættulegt, í það minnsta í miklu mæli, en það berst í lungu og þaðan getur það borist út í blóðrásina, valdið astma, öðrum öndunarfærasjúkdómum og hjarta- og æðasjúkdómum. 

Svifryk af þessari stærðargráðu á upptök sín víða, en ekki síst með brennslu jarðefnaeldsneytis. Þá á uppfok einnig hlut að máli, gróðureldar og slit á malbiki vegna umferðar, svo dæmi séu tekin.

Í þeim löndum þar sem loftmengun er hvað verst má gera ráð fyrir að það eitt stytti líftíma fólks að meðaltal um þrjú til sex ár. 

Mengaðasta borg heims á síðasta ári var borgin Begusarai í norðurhluta Bihar héraðs í Indlandi. Þar býr um hálf milljón manns. Mengun í borginni var að meðaltali um 23 sinnum meiri en þau mörk sem WHO setur. Í Indlandi öllu býr um 96 prósent landsmanna, um 1,3 milljarður manns, við loftgæði sem eru sjö sinnum verri en viðmið WHO.

Mið- og Suður-Asía eru þau svæði þar sem loftgæði mælast verst í heiminum, og þar eru þa fjögur ríki sem á síðasta ári töldust þau menguðustu, Bangladesh, Pakistan, Indland og Tadjikistan. Samkvæmt framkvæmdastjóra IQAir, Frank Hammes, er ekki að vænta neinna betrumbóta í þeim efnum nema því aðeins að gjörbylting verði á orkuframleiðslu og landbúnaði. 

Milljónir deyja árlega vegna heilsufarsvandamála af völdum mengunar. Samkvæmt rannsókn alþjóðlega heilbrigðisvísindafyrirtækisins BMJ sem kom út í nóvember á síðasta ári deyja árlega 5,1 milljón manns af völdum mengunar sem kemur til með brennslu jarðefnaeldsneytis. WHO hefur þá gefið út að 6,7 milljónir manns deyji árlega af völdum loftmengunar í umhverfi og frá heimilisrekstri. 

Í skýrslu IQAir segir loftslagsbreytingar af mannavöldum, fyrst og fremst með brennslu jarðaefnaeldsneytis, sé það sem keyri einkum áfram aukna loftmengun. Með loftslagsbreytingunum breytast veðurkerfi, vindar og regn taka breytingum frá því sem þekkt hefur verið sem aftur hefur áhrif á dreifingu mengunar. Mengun mun versna með fleiri og tíðari tilfellum ofsahita. Það þýðir að há mengunargildi haldast lengur, auk þess sem ofsahiti veldur fleiri og alvarlegri gróðureldum sem svo bæta ofan á mengunina. 

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí