„Ég heyrði fólk engjast um af sársauka“ 

„Lögreglan tók mjög harkalega á mótmælendum,“ segir Grétar Amazeen stærðfræðingur í samtali við Samstöðina. Grétar er þar að lýsa framgöngu lögreglunnar í Berlín gegn þátttakendum í loftslagsmótmælum sem fram fóru í borginni síðastlðinn laugardag. Á myndunum sem fylgja greininni, sem Grétar tók, má sjá mjög harkalegar aðfarir lögreglu.

Grétar, sem búsettur er í Berlín, var á ferðinni um borgina og varð þá var við mótmæla aðgerðir sem vöktu athygli hans. Mótmælin voru skipulögð af nokkrum samtökum sem barist hafa fyrir vitundarvakningu almennings og aðgerðum af hálfu stjórnmálamanna til að bregðast við loftslagsvánni. Eins og greint var frá á Samstöðinni í morgun sagði í samantekt sjöttu matsskýrslu Milliríkjanefndar Sameinuðu þjóðanna um loftslagsbreytingar, sem gefin var út á síðasta ári, að draga þurfi úr útblæstri gróðurhúsalofttegunda í heiminum um helming fyrir árið 2030. Að öðrum kosti muni líf á jörðinni verða fyrir óbætanlegum áhrifum sem vara muni næstu árhundruðin eða jafnvel árþúsundin.

Grétar segir að hann hafi strax borið kennsl á fána og merki Síðustu kynslóðarinnar, aktvístahreyfingar ungs fólks sem mótmælt hefur aðgerðaleysi þýskra stjórnvalda, og sinnuleysi almennings, í loftslagsmálum af miklum móð síðustu misseri. Síðasta kynslóðin hefur meðal annars beitt þeim aðferðum að líma sig niður við götur en Grétar segir að það hafi ekki verið gert í þetta skipti. Hreyfingin beitir borgaralegri óhlýðni í aðgerðum sínum en fordæmir allt ofbeldi. „Ég hef aldrei séð ofbeldi beitt í mótmælaaðgerðum hér í Berlín, nema af hálfu lögreglunnar,“ segir Grétar. 

Mynd: Grétar Amazeen

Fleiri samtök stóðu að mótmælunum, þár á meðal Foreldrar gegn jarðefnaeldsneytisiðnaðinu, baráttuhópur hinsegin fólks í loftslagsmálum og fleiri. 

Mótmælin hófust með mótmælafundi og síðar setuverkfalli fólks á umferðargötu í borginni, þar sem tugir mótmælenda lögðust á götuna og stöðvuðu umferð. Grétar segir að töluverður fjöldi fólks hafi verið á mótmælunum, bæði virkir þátttakendur og stuðningsfólk sem sýndi samstöðu í verki. „Það var allt alveg fullt af löggum, nánast jafn margar og mótmælendur eða fleiri. Það er alltaf þannig hér í Berlín þegar kemur að mótmælum sem snúa að loftslagsmálum eða Palestínu, þá eru iðulega fleiri löggur en mótmælendur.“

Grétar segir að slæðingur af fólki, sem augljóslega voru ekki þátttakendur í mótmælunum, hafi safnast saman á staðnum og hann hafi ekki annað greint en flestir hefðu sýnt samúð með málstaðnum. „Það var nú líklega flest fólk sem var á ferðinni á hjólunum sínum eða nýkomið úr lestinni en ekki ökumenn bíla, svo þá segir kannski eitthvað um móttökurnar.“

Lögreglan hafði stöðvað umferð nokkuð frá mótmælunum og beint annað svo ekki var um það að ræða að ökumenn blönduðust í mótmælin að því marki. Lögregla gekk svo mjög harkalega fram gegn mótmælendum. Grétar segir það raunar vera reglu fremur en undantekningu í Þýskalandi. Tugir voru handteknir í aðgerðunum. „Ég heyrði fólk engjast um af sársauka, lögreglan tók mjög harkalega á fólki.“

Mynd: Grétar Amazeen
Mynd: Grétar Amazeen

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí