„Íslenska er ekki erfiðasta tungumál í heimi“

„Íslenska er ekki eitt erfiðasta tungumál í heimi. Því fer fjarri. Það er þjóðsaga sem einhvern veginn hefur komist á kreik og við virðumst vilja viðhalda – það er eins og við séum stolt af því, að það sé okkur metnaðarmál að íslenska sé erfið.“

Þetta segir Eiríkur Rögnvaldsson, fyrrverandi prófessor í íslensku við Háskóla Íslands, í pistli sem hann birtir innan Facebook-hópsins Málspjall. Eiríkur vísar í viðtal Morgunblaðsins við Skotann Barry James Logan Ward. Barry kom fyrst til Íslands árið 2014 en nú tíu árum síðar var hann valinn af samnemendum sínum til að flytja ávarp fyrir hönd útskriftarnema við Háskólann við Bifröst. Barry segir að það hafi hleypt honum inn í samfélagið að læra íslensku.

Eiríkur segir Barry koma með marga góða punkta í viðtalinu, líkt og mikilvægi þess að stjórnvöld bjóði upp á hentug og ódýr íslenskunámskeið. Hann segir að þau námskeið sem nú sé boðið upp á sé oft á óhentugum tímum og á stöðum sem getur verið erfitt að komast á. Til að bæta gráu ofan á svart séu þessi námskeið oft dýr.

Eitt vill Eiríkur þó leiðrétta hjá Barry, það að íslenska sé sérstaklega erfitt tungumál. „Þetta er líklega eitt erfiðasta tungumál í heimi til að læra en fyrir mig var það hluti af skemmtuninni. Að tala tungumál sem kannski hálf milljón manns á jörðinni talar,“ segir Barry í fyrrnefndu viðtali. Eiríkur segir að þetta sé lífseigur misskilningur, sem mikilvægt sé að leiðrétta.

„Auðvitað er hún erfið ef stefnt er að því að kunna hana til hlítar (hvað sem það merkir) – en það gildir um öll tungumál. Það sem viðheldur þjóðsögunni er ekki síst óþol okkar gagnvart „ófullkominni“ íslensku sem kemur m.a. fram í því hversu fljót við erum að skipta í ensku. Við þurfum að slaka á kröfunum um kórrétta íslensku og kveða þessa þjóðsögu niður því að hætt er við að hún hræði útlendinga og fæli frá íslenskunámi.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí