Í brýnu sló milli Andrésar Inga Jónssonar, þingmanns pírata, og Guðlaugs Þórs Þórðarsonar umhverfisráðherra á Alþingi í morgun.
Andrés Ingi sagði í fyrirspurnatíma að bújarðir skiptu um eigendur vinstri hægri. Væru lukkuriddarar að ásælast náttúruauðlindir með kaupum sem ógnuðu matvælaöryggi og tefldu aðgengi að náttúruauðlindum í tvísýnu.
Vitnaði þingmaðurinn til greinar orkumálastjóra á Vísi sem hann sagði að þyrfti að vekja stjórnmálafólk til umhugsunar. Efla þyrfti lagaramanna og tryggja hagsmuni almennings til að land og auðlindir rynnu ekki varanlega í greipar auðmanna.
Guðlaugur Þór Þórðarson umhverfisráðherra sagði að fyrirspurnin væri óskýr og sagðist ekki hafa lesið grein orkumálastjóra.
Brást þá Andrés illa við og benti á að skrif orkumálastjóra væru með umtöluðustu greinum vikunnar. Efni hennar hefði aukinheldur verið rætt á fundi sem Guðlaugur Þór sat sjálfur í gær. Andrés Ingi sagði að ráðherra þyrfti að sýna að hann væri ekki „dindill hagsmunaaflanna“ í þessum málum.
Guðlaugur Þór sneri þá vörn í sókn og sagði að Andrés Ingi og píratar hefðu sjálfir með atkvæðagreiðslum ekki hikað við að ganga gegn almenningi í landinu.
Urðu læti og framíköll sem leiddu til þess að Birgir Ármannsson þingforseti þurfti að grípa inn í.