Framboð af hentugu húsnæði á leigumarkaði minnkaði milli haustmánaða 2022 og 2023 á sama tíma og samningsstaða leigjenda gagnvart leigusölum versnaði.
Þetta segir í nýjum upplýsingum frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnum sem gefnar hafa verið út.
Þótt stofnunin segi það ekki berum orðum má lesa milli lína að staða leigjenda hafi sjaldan eða aldrei verið verri.
Staðan versnaði mest á meðal leigjenda á aldrinum 35-44 ára. Þeir upplifðu samkvæmt rannsókn stofnunarinnar meiri verðhækkanir og búa nú við þrengri kost en aðrir aldurshópar.
Það kann að skýra hvers vegna töluverð brögð eru sögð að því að ungt fólki leiti nú út fyrir landsteinana í leit að húsnæði og lifibrauði.
Aðeins þriðji hver leigjandi taldi sig í sterkri samningsstöðu gagnvart leigusala í fyrrahaust. Það er mikil breyting frá því sem var á haustmánuðum 2022 en þá taldi annar hver leigjandi sig hafa sterka stöðu.
Leigjendur á aldrinum 35-44 ára á leigumarkaði hafa einnig séð hraðar leiguverðshækkanir á síðasta ári og húsakostur þeirra hefur látið á sjá.