BHM og Landssamband íslenskra stúdenta (LÍS) furða sig á metnaðarleysi ríkisstjórnarinnar eftir tveggja ára samráð um bætt námslánakerfi. Segja þau óbreytt styrkjakerfi auka ójöfnuð milli ungs fólks og eldri kynslóða sem nutu vaxtaniðurgreiðslu. Á sama tíma setja íslenskir námsmenn Evrópumet í atvinnuþátttöku.
Kallað er eftir því að stjórnvöld grípi til frekari aðgerða til að liðka fyrir kjarasamningum. Er þetta meðal þess sem kemur fram í umsögn BHM og LÍS um breytingar á lögum um námslánakerfið.
BHM og LÍS kalla eftir eftirfarandi breytingum í frumvarpinu:
- 25% niðurfellingu á höfuðstól eftir hverja önn og 15% niðurfellingu við námslok eins og í Noregi.
- Ábyrgðarmannakerfið verði sannarlega afnumið að fullu – staða ótryggra lántaka verði varin.
Þá kalla samtökin eftir nauðsynlegum umbótum í kerfinu til lengri tíma:
- Blönduðu kerfi námsstyrkja og vaxtaniðurgreiðslu
- Lækkun á endurgreiðsluhlutfalli G-lána og R-lána.
- Lækkun vaxtaþaks á lánum og afnámi vaxtaálagsins.
- Uppgreiðsluafsláttur verði festur í 15% framvegis
- Auknum heimildum til að afskrifa lán og beita vaxtaniðurgreiðslu til dæmis þegar skortur er í einstaka greinum.