„Síðan starfsemi hætti í Kató og húsið komst í eigu Nesnúps (systurfélags VHE smkv. fréttaumfjöllun) hefur það meira eða minna staðið opið fyrir ógæfu og skemmdarverkum. Keyrt hefur um þverbak undanfarna daga og eiginlega með ólíkindum að ekki hafi komið upp eldur í byggingunni. Það er ekki óþekkt að yfirgefin hús í bænum brenni. Hvað þarf eiginlega til að eigendurnir sýni bæjarbúum virðingu, beri ábyrgð á húsinu og verji fólk fyrir þeirri hættu sem af því stafar? Og hvað ætlar sveitarfélagið að láta þetta ganga lengi svona?“
Þetta skrifaði Davíð Arnar Stefánsson, oddviti VG í Hafnarfirði, á Facebook laust upp úr hádegi í dag. Hann þurfti ekki að bíða lengi eftir því að eldur kæmi upp í húsinu. Stuttu eftir að hafa spáð þessu, örfáum klukkustundum, barst slökkviliðinu tilkynning um eld í þessu sama húsi. Húsið sem Davíð Arnar vísar til, Kató, er nú yfirgefið, en áður hýsti það leikskóla á vegum kaþólskra nunna. Húsið stendur á móti St. Jósefsspítala, sem nú heitir Lífsgæðasetrið.
Mbl.is greinir frá því að slökkviliðinu hafi borist tilkynning um lítinn eld í Kató síðdegis. „Einhverjir höfðu brotist þar inn og kveikt í einhverju smá rusli á gólfi sem er búið að slökkva,“ er haft eftir Steinþóri Darra Þorsteinssyni, aðstoðarvarðstjóra hjá slökkviliðinu. Hér fyrir neðan má sjá myndir sem Davíð Arnar tók af húsinu fyrr í dag.





