Yfirvöld á Haítí hafa sett á útgöngubann eftir sólsetur í tilraunun sínum til að ná tökum á ofbeldisöldu sem riðið hefur yfir landið. Vopnaðir menn réðust um helgina á tvö stærstu fangelsi Haítí og frelsuðu fanga þar í haldi. Hátt í 4.000 fangar sluppu úr haldi og standa fangelsins eftir því sem næst auð.
Lýst var yfir þriggja sólarhringa neyðarástandi í landinu í gær á meðan strokufanganna er leitað. Þeir eru sagðir mjög hættulegir margir hverjir, með þunga dóma fyrir fjölmörg ofbeldisbrot á bakinu. Að minnsta kosti tólf eru látnir eftir árásirnar á fangelsin og fjölmargir, bæði úr hópi fanga og fangavarða særðir.
Árásirnar eru sagðar að undirlagi glæpahópa sem allt frá því á fimmtuaginn í síðustu viku hafa gert skipulagðar árásir á innviði ríkisins í höfuðborginni Port-au-Prince. Meðal annars hafa verið gerðar árásir á alþjóðaflugvöllinn í landinu, seðlabankann og knattspyrnuleikvang, auk fangelsa. Skothljóð hafa heyrst víða um stræti borgarinna síðustu daga.
Forsætisráðherra Haítí, Ariel Henry, flaug til Kenía í síðustu viku í von um að fá stuðning Sameinuðu þjóðanna til að takast á við ofbeldið í landinu, en glæpahópar hafa plagað Haítí svo árum skiptir. Íbúar Haítí telja yfir 11 milljónir manns en lögreglumenn eru rétt um 9 þúsund og ráða ekki neitt við ástandið. Talið er að glæpahópar hafi í raun um 80 prósent höfuðborgarinnar á valdi sínu. Vonast Henry til að Sameinuðu þjóðirnar sendi aðstoð, leidda af Keníumönnum.