Opið fyrir umsóknir úr minningarsjóði Eðvarðs Sigurðssonar – „Alþýðan finna mun brýning í baráttu þinni“ 

Verkalýðsmál 25. mar 2024

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar auglýsir eftir umsóknum en sjóðurinn veitir styrki til rannsókna og útgáfu verkefna sem varða sérstaklega íslenskan vinnumarkað, hagsmuni launafólks og starfsemi verkalýðshreyfingarinnar. Ef um lokaverkefni í námi er að ræða skal það að minnsta kosti vera á meistarastigi. Hámarksfjárhæð er ein milljón krónur. Umsóknir um styrkinn þurfa að berast fyrir 15. apríl en úthlutað er úr sjóðnum 1. maí ár hvert.

Minningarsjóður Eðvarðs Sigurðssonar var stofnaður árið 1983 til minningar um Eðvarð Sigurðsson, formann Verkamannafélagsins Dagsbrúnar. Sjóðurinn er í umsjá Alþýðusambands Íslands. Um sjóðinn gildir sérstök reglugerð. Frekari upplýsingar um minningarsjóðinn og umsóknareyðublað má finna hér.

Dæmdur fyrir dreifibréfsmálið

Eðvarð var einhver merkasti, ötulasti og öflugasti forystumaður íslenskra verkamanna á síðustu öld, ávallt vakinn og sofinn í baráttu sinni fyrir alþýðunni og kjörum hennar. Hann fæddist árið 1910 í Garði, sonur hjónanna Sigurðar Eyjólfssonar sjómanns og Ingibjargar Sólveigar Jónsdóttur húsmóður. 

Eðvarð vann ýmis verkamannastörf og hóf ungur þátttöku í störfum verkalýðshreyfingarinnar. Hann gekk í Dagsbrún árið 1930 og á árunum 1935 til 1936 var hann þegar orðinn einn virkasti andstæðingur þáverandi stjórnar félagsins. Hann skipaði sér í andstöðuhóp kommúnista innan félagsins, sem vildu að félagið beitti sér harðar gegn atvinnuleysinu, væri róttækara og virkara. Í byrjun stríðsáranna var Eðvarð þegar orðinn óumdeildur sem einn öflugasti forvígismaður Dagsbrúnar. 

Árið 1942 var Eðvarð handtekinn fyrir aðkomu sína að dreifibréfsmálinu svokallaða, þegar dreift var bréfi á ensku meðal breskra hermanna og þeir beðnir um að ganga ekki í störf íslenskra verkamanna en Dagsbrúnarfélagar voru þá í verkfalli. Á þrettánda degi jóla komu breskir hermenn þrammandi að Litlu-Brekku á Grímsstaðaholtinu, torfbænum þar sem Eðvarð bjó með móður sinni og systkinum, og tóku hann höndum. Eðvarð var ásamt þremur félögum sínum dæmdur fyrir landráð gegn breska heimsveldinu, og það af íslenskum dómstól. Sat hann í fangelsi um fjögurra mánaða skeið fyrir vikið. 

Forystumaður sósíalista og verkafólks

Árið eftir, 1942, var Eðvarð kjörinn í stjórn Dagsbrúnar og tveimur árum síðar var hann ráðinn starfsmaður verkalýðsfélagsins en störf að verkalýðsmálum urðu þaðan í frá ævistarf hans. Formaður Dagsbrúnar varð Eðvarð 1961 og sat sem slíkur til ársins 1982. Þá varð hann formaður Verkamannasambandsins frá stofnun þess árið 1964 og sat til ársins 1975. Auk þess sat Eðvarð í þrjá áratugi í miðstjórn ASÍ og var varaformaður sambandsins í tvígang. 

Sem helsti forystumaður reykvískra erfiðisvinnumanna í áratugi og í forystusveit Alþýðusambandsins átti Eðvarð hlut að helstu framfaramálum fyrir íslenskt launafólk og sigrum verkalýðshreyfingarinnar meðan hans naut við. 

Eðvarð var kjörinn þingmaður Reykvíkinga árið 1959 og sat á Alþingi í tvo áratugi. Hann var um langt skeið í forystu Sósíalistaflokksins og síðar Alþýðubandalagsins. 

Eðvarð heldur ræðu á útifundi á Lækjartorgi á alþjóðlegum baráttudegi verkamanna, 1. maí. Mynd: Þjóðviljinn

Setti kjör verkafólks framar eigin heilsu

Við andlát Eðvarðs skrifaði verkalýðsforkólfurinn Guðmundur J. Guðmundsson, Guðmundur Jaki, minningarorð um samstarfsmann sinn til margra ára í Þjóðviljann, en Guðmundur var varaformaður Eðvarðs um margra ára skeið og tók við sem formaður Dagsbrúnar þegar Eðvarð lét af því embætti. Við grípum niður í minningarorðin: „Í miðri vinnudeilu 1965, með yfirvinnubanni og takmörkuðum verkfallsaðgerðum, vorum við Eðvarð búnir að skipta með okkur verkum. Hann var að vanda formaður samninganefndar en ég sá um framkvæmd aðgerða og ýmsa takmarkaða þætti samninganna. Þá var snemma morguns hringt til mín. Eðvarð Sigurðsson var í símanum og tilkynnti mér með rósemi að hann hefði fengið hjartaáfall þá um nóttina, neitaði lækni um að flytja sig á sjúkrahús vegna þess að hann átti eftir að ganga frá nokkrum skjölum svo auðveldara væri fyrir mig að taka við samninganefndinni. Bað mig nú að flytja sig á sjúkrahús, – en tók fram að það mætti ekki vera í sjúkrabíl. 

Þegar ég kom að sækja hann, setti hann mig með ró og stillingu inn í stöðu mála og gaf mér hollráð. Þegar á sjúkrahúsið var komið neitaði hann mér um að halda á tösku sem hann var með og gekk sjálfur upp stigana. Kvaddi mig með handabandi þegar upp var komið og bað mig að duga vel. Alla næstu nótt stóðu yfir samningafundir, en í símanum fékk ég þær upplýsingar frá Landakoti að Eðvarð berðist við dauðann. 

Samningar náðust nokkru síðar og Eðvarð átti eftir að rísa upp og ganga til starfa á nýjan leik.“

Slíkur forystumaður var Eðvarð, að þrátt fyrir að vera nánast milli heims og helju var það hans forgangsmál að koma svo málum fyrir að hægt væri að ná sem bestri niðurstöðu í kjarabaráttu verkafólks. 

„Svo fátækt og arðráni linni“

Í sama tölublaði Þjóðviljans birtist erfiljóð um Eðvarð eftir Helga Seljan, alþingismann og samflokksmann Eðvarðs í Alþýðubandalaginu til margra ára. Síðasta erindið hljóðar svo:

„Alþýðan finna mun brýning í baráttu þinni,

bera hátt merkið, svo fátækt og arðráni linni.

Dýrmæt var fylgd þín og harmljóð huganum lifir.

Heiðríkja og vordýrð er fagurri minningu yfir.“

Eðvarð ásamt Guðrúnu Bjarnadóttur konu sinni í síðustu 1. maí kröfugöngu sinni, 1983. Mynd: Þjóðviljinn

Frétt af vef Eflingar.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí