Það stefnir í að greiðslumiðlunarfyrirtækið alræmda Rapyd muni hafa talsverðan hagnað af háskólanemendum á næstu vikum. Tæplega 14 þúsund nemendur Háskóla Íslands þurfa allir að greiða skrásetningargjöld innan skamms en að svo stöddu er engin leið að greiða það gjald án aðkomu ísraelska fyrirtækisins Rapyd. Kröftug sniðgönguherferð hefur beinst gegn fyrirtækinu eftir að Ariel Shtilman, eigandi þess, lýsti yfir stuðningi við þjóðarmorð í Palestínu.
Inga Björk Margrétar Bjarnadóttir, aðjunkt við menntavísindasvið háskólans, vekur athygli á þessari óþægilegu stöðu margra háskólanema innan Facebook-hópsins Sniðganga fyrir Palestínu – BDS Ísland. „Í Háskóla Íslands eru 13.700 nemendur sem borga 75.000 kr. í skrásetningargjöld á næstu vikum í gegnum Rapyd. Samtals er þetta um milljarður sem rennur í gengum Rapyd, og gæti því hagnaður fyrirtækisins verið á bilinu 3-4 milljónir. Engar upplýsingar eru á Uglunni um aðrar leiðir til þess að greiða,“ segir hún.