Alla mannkynsöguna hafa þeir sem hafa náð einhverjum aldri kvartað undan hegðun ungsfólks. Alveg eins og í Róm til forna, þá hafa margir öldungar kvartað undan þeim ungu. Sívinsælt stef er að segja eitthvað hafa farið úrskeiðis í uppeldinu. Fyrrverandi þingmaðurinn Helgi Hrafn Gunnarsson segir á hinn boginn að ef einhverjar kynslóðir hafi verið illa upp aldra, þá séu það þær eldri.
„Íslendingar eru upp til hópa illa upp aldir og sérstaklega eldri kynslóðirnar,“ skrifar Helgi Hrafn á Facebook og útlistar svo í hverju það felst.
„Okkur er aldrei kennt að við bæði getum, og eigum, að hafa stjórn á hegðun okkar jafnvel þegar við upplifum tilfinningar. Það er hægt að tjá ósætti án þess að láta öðrum líða illa. Það er hægt að rökræða hlutina yfirvegað þegar maður er ósammála. Skapvonska og bölmóður er ekki frumforsenda breytinga. Það er ekki heilög skylda að láta tilfinningar okkar bitna á fólki í kringum okkur. Geðshræring er ekki því mikilvægari eftir því sem málefni er alvarlegra, heldur einmitt þveröfugt, það er því mikilvægara að halda í getuna til að hugsa rökrétt. Yfirvegun er góð, sérstaklega þegar hún er erfið.“
Ofan á þetta þá sé mjög algegnt meðal eldra fólks að móðgast út af smáræði. Það vilji oft ekki ræða við annað fólk heldur snýst allt um að halda orðinui sjálfur. „Það á að leyfa fólki að klára setningar og ekki sífellt að grípa fram í. Það á að hlusta á fólk. Það er líka betra að gefa fólki bara sekúndu eða tvær til að hugsa frekar en að margendurtaka það sama aftur og aftur bara til að halda áfram að tala. Það þarf ekki að skipta um umræðuefni um leið og maður hefur ekkert meira að segja um það sem er til umræðu. Það að maður móðgist þýðir ekki að einhver hafi gert manni eitthvað,“ segir Helgi Hrafn og bætir við að lokum kerksinn:
„Ef þér þykir þessi pistill smekkfullur af hroka og yfirlæti, þá geturðu huggað þig við það, að það skiptir ekki nokkru einasta máli, og þú þarft ekkert að útskýra það fyrir mér, því að mér er satt best að segja andskotans sama.“