Í röðum stjórnmálaskýrenda er talið nánast öruggt að Halla Tómasdóttir, viðskiptakona í New York, muni tilkynna að hún ætli að bjóða sig fram til embættis forseta á morgun.
Framboð Höllu gæti gjörbreytt stöðunni.
Grétar Þór Eyþórsson, prófessor í stjórnmálafræði, segir að það væri skrýtið að boða til fundar eins og Halla hefur gert á morgun ef hún ætli ekki að gefa kost á sér.
Hann telur einsýnt að Halla hyggi á framboð en hún fékk mikið fylgi fyrir átta árum þegar Guðni Th var kjörinn forseti. Halla saxaði síðustu dagana fyrir kosningarnar nokkuð á muninn sem mælst hafði milli þeirra tveggja í skoðanakönnunum.

„Möguleikar Höllu ættu að verða talsverðir,“ segir Grétar. Hann segir að framhaldið ráðist af nokkru hvort einhverjir öflugir bætist enn við.
„Halla gæti fælt einhverja frá með því að bjóða sig fram núna. Í því ljósi er þetta kannski „smart múv“ hjá henni,“ segir Grétar Þór.
Talið er að Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sé að kanna hug samfélagsins. Katrín myndi þó seint tefla í tvísýnu varðandi framboð til Bessastaða. Að sögn heimildarmanns sem stendur Katrínu nálægt innan VG, fer Katrín ekki fram nema hún telji mjög líklegt að hún verði forseti. Í því ljósi kann framboð Höllu að setja strik í hennar reikning.
Fimm konur og 16 karlar hafa nú meldað sig á island.is sem forsetaefni samkvæmt Ríkisútvarpinu.