Raunveruleg hætta er á að mesta hungursneyð á sögulegum tímum brjótist út í Súdan. Yfir 25 milljónir manns í Súdan, Suður Súdan og í Tjad eru föst milli steins og sleggju matarskorts á svæði sem er því sem næst algjörlega óaðgengilegt fyrir mannúðarstofnanir. Blóðugt borgarastríð geysar í Súdan og ekkert bendir til að draga taki úr ofbeldinu eftir tíu mánaða gengdarlaust blóðbað og bardaga.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna greindi í gær frá þessu og sagði að um 90 prósent þess fólks sem liði nú neyð af völdum matarskorts og vannæringar væri fast á svæðum sem væru stofnuninni að mestum hluta óaðgengileg, vegna átakanna.
Framkvæmdastjóri Matvælaáætlunarinnar, Cindy McCain, er nýlega komin frá Suður-Súdan og sagði hún að milljónir mannslífa væru að veði, sem og friður og stöðugleiki heillar heimsálfu. Aðeins væru tveir áratugir síðan heimsbyggðin hefði tekið höndum saman til að bregðast við hungursneyð í Darfur-héraði í Súdan, en þrátt fyrir það væri almenningur í landinu nú gleymdur.
Í Suður-Súdan eru flóttamannabúðir fullar af fólki frá nágrannaríkinu, hvaðan nærri 600 þúsund manns hafa flúið. Þangað koma heilu fjölskyldurnar hungraðar og mæta þar enn meira hungri. Eitt af hverjum fimm börnum sem komast yfir landamærin þjáist af vannæringu, samkvæmt Matvælaáætluninni. Í Súdan er staðan sú að aðeins fimm prósent þjóðarinnar hefur efni á einni fullnægjandi máltíð á dag.
Samstöðin greindi frá því fyrir mánuði síðan að samkvæmt mati Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna, UNICEF, þjáðust 3,5 milljónir barna af bráðri og alvarlegri vannæringu í Súdan. Vannæring mun ótna lífi um 700 þúsund barna á þessu ári, verði ekki brugðist við. Borgarastyrjöldin í landinu er alvarlegast fólksflóttakrísa sem er yfirstandandi í heiminum að mati UNICEF.
Borgarastríðið sem er háð milli tveggja fylkinga úr herforingjastjórninni í Súdan hófst í apríl á síðasta ári og hefur einkum verið barist í nágrenni höfuðborgarinnar Khartoum og í Darfur-héraði. Tugir þúsund hafa látist af völdum átakanna, tölur um mannfall eru nokkuð á reiki, og um margir tugir þúsunda eru sár. Innviðir landsins hafi varið eyðilagðir og efnahagur Súdan er í molum.
Yfir átta milljónir manns eru á flótta í Súdan, þar af hafa um tvær milljónir flúið land en um sex milljónir eru á flótta innanlands. Hvergi eru jafn margir á flótta í heiminum öllum.
Bæði uppreisnarmenn og her herforingjastjórnarinnar hafa verið sakaðir um að láta sprengjum rigna yfir íbúðahverfi, að ráðast á almenna borgara og að koma í veg fyrir að hægt sé að koma neyðaraðstoð til borgara Súdan.
Stofnun Mannréttindafulltrúa Sameinuðu þjóðanna, OHCHR, lýsti því í upphafi mánaðarins að með því að koma vísvitandi í veg fyrir að neyðaraðstoð nái til Súdana séu stríðandi fylkingar uppvísar að stríðsglæpum. „Súdan er orðið að martröð í vöku. Því sem næst helmingurinn þjóðarinnar, 25 milljónir manns, eru í brýnni þörf fyrir neyðaraðstoð, bæði þegar kemur að matvælum og lyfjum. Um 80 prósent allra sjúkrahúsa eru óstarfhæf,“ sagði Volker Turk Mannréttindafulltrúi Sameinuðu þjóðanna.
Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna segir stöðuna þá að mannúðaraðstoð væri í raun stopp í landinu, og ekki yrði hægt að veita hana nema ofbeldinu linni. Það sé eina leiðin til að koma í veg fyrir stórslys í landinu, hamfarir af biblíulegum skala.
Ríkisstjórn Súdan lýsti því loks í gær að hún hefði fallist á að taka við neyðaraðstoð, í fyrsta sinn, frá Tjad og Suður-Súdan.