Sumir fjölmiðlar auki fordóma gegn útlendingum á Íslandi

Fjölmiðlar 16. mar 2024

Morgunblaðið, Viðskiptablaðið og jafnvel Ríkisútvarpið eru þeir fjölmiðlar sem síðustu vikur hafa verið sakaðir um að kynda undir aukinni andúð gegn útlendingum.

Haldið hefur verið fram að Mogginn sé í herferð gegn innflytjendum en einkum þó hælisleitendum. Húsnæðismarkaðurinn er löngu sprunginn á höfuðborgarsvæðinu og má segja að barist sé um hverja koju. Margar umfjallanir fjölmiðla undanfarið bera þess merki að litið sé framhjá því að stjórnvöld eru sökudólgurinn en ekki vinnandi hendur að utan sem smyrja hjól atvinnulífsins.

Margrét Tryggvadóttir, formaður Rithöfundasambandsins, ræddi í þætti á Samstöðinni í vikunni, að ásókn Grindvíkinga á húsnæðismarkaðinn væri aðeins þriðjungur þess mannfjölda sem hefði þurft að flytja inn undanfarið vegna ferðaþjónustunnar. Það þyrfti að skoða í samhengi.

Sanna Magdalena Mörtudóttir, borgarfulltrúi sósíalista, sagði einnig nýverið í umræðu á Samstöðinni að Morgunblaðið undir stjórn Davíðs Oddssonar væri fjölmiðla verst í því að kynda undir fordómum gegn útlendingum. Hún vildi þó ekki undanskilja þátt Rúv, þar sem hún sagðist hafa séð breytingar á efnistökum og römmun umfjöllunar hjá Ríkisútvarpinu.

Sumir rekja meint þáttaskil til augnabliksins fyrir tveimur vikum þegar minnstu munaði að maður frá Palestínu yrði valinn sem flytjandi framlags Íslands í Evróvisjón. Ummæli framhaldsskennara við ML kostuðu hann starfið í kjölfarið. En frá og með þeirri helgi hafa margir tekið sér stærri orð í munn á samfélagsmiðlum og lýst öfgafyllri skoðunum auk þeirrar breytingar sem sumir telja sig sjá meðal sumra fjölmiðla.

Kristín Dýrfjörð fræðikona spyr um vegferð Morgunblaðsins í færslu á facebook í gærkvöld.

„Helsta markmið Moggans þessa daga virðist vera að ýta undir rasisma og ótta við alla sem ekki eru fæddir á Landsspítlanum og geta rakið ættir sínar aftur á 17. öld í Íslendingabók,“ segir hún vegna fréttar í blaðinu þar sem reynt er að gera tortryggilegt að menntayfirvöld kynni erlenda trúarsiði. Í umræðu við færslu Kristínar kemur fram að Viðskiptablaðið sýni einnig skýr merki um aukna andúð á útlendingum.

Guðmundur Andri Thorsson leggur einnig orð í belg um staðalmyndir og hittir kannski naglann á höfuðið með færslu sem hann birti í morgun:

„Þær eru svolítið undarlegar þessar deilur hér um „útlendinga“ og þegar ég les þær líður mér eins og ég búi á mjög afskekktum stað þar sem sérhver aðvífandi gestur vekur umtal og furðu. Ýmist les maður um það hversu framúrskarandi gott fólk „útlendingarnir“ séu, hjálpsamir, brosmildir og elskulegir og „og svo þrifið þetta fólk“ eða þá að þeim er fundið allt til foráttu og taldir standa fyrir öllum hugsanlegum glæpum. Ekki virðist gert ráð fyrir því að „útlendingar“ séu alls konar fólk, gott og vont eftir atvikum. Hver og einn „útlendingur“ sem á vegi fólks verður er um leið orðinn að erkidæmi allra útlendinga og grannt fylgst með honum til að geta nú dregið sem víðtækasta ályktanir um „útlendingana“. Við erum sem sé að tala hér um mannkynið. Af því eru mörg ólík eintök til, raunar jafn mörg og mennirnir eru margir. Útlendingar eru sem sagt stórir og litlir, feitir og mjóir, ljóshærðir, dökkhærðir og rauðhærðir, misbrúnir og misfljótir að hlaupa, málgefnir eða þumbaralegir, þrasgjarnir eða sáttfúsir, brosmildir eða fýlulegir. Útlendingar eru líka með alls konar nef. Sumir dansa, aðrir ekki. Margir útlendingar eru konur en karlar finnast líka margir í þeirra röðum, fyrir utan þau sem ekki skilgreina kyn sitt samkvæmt tvíhyggjunni. Og svo framvegis. Leigubílstjóri sem fremur glæp á farþega sínum er ekki fulltrúi neins nema kannski drullusokka. Við erum báðir karlmenn en ég neita því að hann sé fulltrúi minn, standi fyrir mín gildi eða mín verk eða sé yfirleitt á mínum vegum. Samt væri nærtækara að láta mig bera ábyrgð á honum en allslausa fjölskyldu frá fjarlægu landi sem hingað hefur leitað að öryggi. Fárveikur og hættulegur maður með hausinn fullan af ranghugmyndum – hann er ekki fulltrúi allra þeirra sem veikjast á geði. Hann er hælisleitandi en hann er ekki „Hælisleitandinn“. Hann er ekki „þetta fólk“. Hann er þessi maður og þarf að komast í viðeigandi úrræði. Hann á sín réttindi, en það er ekki vegna þess hvernig eða hver hann er heldur vegna þess hvernig og hver við erum, sem samfélag.“

Greinilega er um mál málanna að ræða því Sif Sigmars víkur tali sínu að sama efni í pistli vikunnar fyrir Heimildina. Hún segir: „Samfélag gengur ekki út á að tryggja að við séum öll „sátt og samstíga“. Það gengur út á að læra að dansa meðal fólks sem er annarrar skoðunar, menningar, aðhyllist önnur trúarbrögð, hefur aðrar langanir, lífsgildi, er af öðrum uppruna og kýs annan stjórnmálaflokk en við.“

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí