„Geðveikin í verðlagningu leiguíbúða þekkir engin takmörk. Hvar endar þetta? Hvenær ætla stjórnvöld að grípa inn í þetta heljarástand?“
Þetta skrifa Leigjendasamtökin í færslu á Facebook sem hefur vakið talsverða athygli. Samtökin hafa tekið saman nokkurn fjölda af auglýsingum þar sem íbúðir er sagðar til leigu á verði sem allir hljóta að sjá að óhóflega dýrt. Myndir af þessum auglýsingum má sjá hér fyrir neðan.
„Stúdíóíbúðir frá 30 fermetrum upp í eins svefnherbergja smáíbúðir í 67 fermetrum geta nú kostað allt frá 240 og upp í 310 þúsund og eru þetta bara nokkur dæmi frá því í febrúar. Raunin er orðin sú að manneskja í fullri vinnu við lágmarkslaun, hefur ekki efni á því lengur að leigja sér eigið húsnæði. Ungt fólk, nemar, einstæðir foreldrar, öryrkjar, enginn þessara hópa hefur efni á því að vera til. Ekki á Íslandi í dag,“ segja Leigjendasamtökin og bæta við að lokum:
„Þetta er ekki ný þróun, heldur áratugalöng. Aðgerðir ríkisstjórna og yfirvalda hafa ENGU skilað í allan þennan tíma. Staðan hefur bara versnað. Hvenær er nóg komið?“








