Það má leiða að því líkur að þeir Íslendingar sem fylgjast vel með fréttum fari ekki í bráð á veitingastaðinn Pho Víetnam. Veitingastaðurinn, sem er með útibú bæði á Suðurlandsbraut og Laugavegi, hefur ítrekað komist í fréttir vegna skorts á hreinlæti.
Nú síðast í morgun þegar Vísir greindi frá því að veitingastaðurinn hefði fengið einn af fimm mögulegum í einkunn frá Heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur í óboðaðri heimsókn síðastliðinn október.
En hvað með útlendinga eða þá sem fylgjast lítið með fréttum? Er ekki eðlilegt að þeir séu varaðir frá viðskiptum við Pho Víetnam? Jú, segir Egill Helgason fjölmiðlamaður. Þetta sé ekki einkamál milli eftirlitsaðila og verta. Egill skrifar á Facebook:
„Þetta er hryllingur og auðvitað ætti að loka þessum stöðum strax. Í New York eru merki utan á veitingahúsum þar sem má sjá hversu vel þau gæta hreinlætis. Þau eru flokkuð í stafrófsröð. Mætti ekki koma upp slíku kerfi hér? Þetta er ekki einkamál milli veitingahúsaeigenda og eftirlitsaðila.“