„Uppáhaldsmyndin mín akkúrat núna,“ skrifar Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, á Facebook og deilir myndinni sem sjá má hér fyrir ofan. Þar má sjá Sólveigu taka í spaðann á Kolbrúnu Valvesdóttur, stjórnarkonu í Eflingu, stuttu eftir að kjarasamningur var undirritaður á dögunum.
Sólveig útskýrir svo nánar hvers vegna þessi mynd er í uppáhaldi hjá henni um þessar mundir. „Kolla og Solla óska hvor annari til hamingju með að hafa náð fram annari leiðréttingu á sögulega vanmetnu kvennastarfi, ræstingastarfinu að þessu sinni, og með að hafa náð góðum árangri í að fá stjórnvöld til að gefa launafólki myndarlegan peninga-pakka í þakklætisskyni fyrir að undirrita kjarasamninga,“ segir Sólveig og heldur áfram:
„Kolla og Solla vita að þessi árangur náðist ekki síst vegna þess að þær ásamt fjölda Eflingar-kvenna og karla hafa verið með hasar, læti og uppivöðslusemi hér og þar og því sem næst allstaðar á síðustu árum. Með Kollu og Sollu á myndinni eru góðir og glaðir Eflingar-menn sem vinna í hefðbundnum karlastörfum en kunna að gleðjast með konum yfir góðum kvenna-árangri.“