Í lok febrúar síðastliðins var fjöldi fólks sem flúið hafði Úkraínu eftir innrás Rússa og fengið höfðu tímabundna vernd í ríkjum Evrópusambandsins 4,2 milljónir manna. Því sem næst allir eru úkraínskir ríkisborgarar, yfir 98 prósent. Fast að því helmingurinn, eða 46 prósent, eru fullorðnar konur og einn þriðji eru börn, eða 33 prósent. Fullorðnir karlmenn eru 21 prósent.
Flestir Úkraínumenn sem fengið hafa tímabundna vernd voru í lok febrúar í Þýskalandi, tæplega 1,3 milljónir manns. Það jafngildir um 30 prósentum allra þeirra Úkraínumanna sem fengið hafa vernd í Evrópusambandslöndunum. Næst flestir voru þeir í nágrannaríkinu Póllandi, tæplega milljón manns, eða um 23 prósent af heildarfjöldanum. Í Tékklandi höfðu 385 þúsund Úkraínumenn fengið vernd, sem jafngildir 9 prósentum allra.
Greinilegt er bæði að Úkraínumenn halda áfram að flýja land sitt, sem og að nokkur tilfærsla er á milli landa þegar kemur að þeim Úkraínumönnum sem fengið hafa tímabundna vernd. Þannig fjölgaði þeim í Þýskalandi milli janúar og febrúar um ríflega 16 þúsund, um tæplega 6 þúsund í Póllandi og um tæplega 4 þúsund í Tékklandi. Á sama tíma fækkaði Úkraínumönnum sem njóta verndar í Austurríki um tæplega 1.500 manns og um tæplega 700 manns í Frakklandi, svo dæmi séu nefnd.
Sé horft til mannfjölda ríkjanna og hlutfalls Úkraínumanna sem fengið hafa vernd í hverju landi sést að í Tékklandi eru nú 35,6 Úkraínumenn á hverja þúsund íbúa, 26,5 í Litháen og 26 í Póllandi.
Tímabundin vernd Úkraínumanna er byggð á ákvörðun framkvæmdastjórnar Evrópusambandsins frá því í mars 2022, sem viðbragð við fjölda flóttafólks frá Úkraínu til landa sambandsins. Tímabundin vernd gildir nú til 4. mars á næsta ári, en hún var framlengd um eitt ár með ákvörðun í september á síðasta ári.
Fjöldi Úkraínumanna sem höfðu alþjóðlega vernd hér á landi var í lok febrúar rétt tæplega 3.500 manns. Ekki er þó hægt að fullyrða að allir þeir sem hafa hér alþjóðlega vernd séu á landinu, rétt eins og ekki er hægt að fullyrða hið sama um ríki Evrópusambandsins.