Áhorf og hlustun á Samstöðina nær tvöfaldst á aðeins fimm mánuðum

Fjölmiðlar 18. apr 2024

Samkvæmt könnun Maskínu frá fyrri hluta apríl sáu eða heyrðu 12,0% landsmanna þætti Samstöðvarinnar vikuna sem mæld var. Þetta er umtalsverð aukning frá því í nóvember á síðasta ári. Þá sögðust 6,3% þátttakenda hafa hlustað eða horft á þætti Samstöðvarinnar. Á þessum fimm mánuðum hefur áhorfið því svo gott sem tvöfaldast.

Könnun Maskínu bendir til að rúmlega 37 þúsund manns eldri en 18 ára horfi eða hlusti á Samstöðinni í hverri viku. Til samanburðar við 12,0% hlustun og áhorf á Samstöðina þá er lestur Viðskiptablaðsins um 7,6% á viku. Til samanburðar við 37 þúsund manns sem horfa eða hlusta á þætti Samstöðvarinnar í hverri viku þá lesa um rúmlega 36 þúsund manns Heimildina í hverri viku samkvæmt Gallup, tæplega 39 þúsund manns horfa á Kastljós og 17 þúsund manns á Silfrið. Rúmlega 62 þúsund manns stilla yfir á Rás eitt yfir heila viku. Miðað við þennan samanburð notar almenningur Samstöðina álíka og Heimildina og Kastljós, 58% meira en Viðskiptablaðið og 118% meira en Silfrið. Áheyrendahópur Samstöðvarinnar er orðinn um 60% af áheyrendum Rásar eitt.

„Þetta er náttúrlega ævintýraleg staða,“ segir Gunnar Smári Egilsson ritstjóri Samstöðvarinnar. „Það kemur okkur ekki á óvart að áhorf og hlustun hafi vaxið, en við reiknuðum ekki með svona stökki.“

Í haust þegar áhorf og hlustun var mæld voru útvarpssendingar Samstöðvarinnar svo til nýbyrjaðar, en tilraunaútsendingar byrjuðu í ágúst. Í desember bættust sjónvarpssendingar við, en fólk sem fær sjónvarpið sitt frá Símanum getur horft á Samstöðina. Könnun Maskínu nú sýnir að þetta hefur ýtt rækilega undir áhorf og hlustun.

„Við höfum óskað eftir að Vodafone og Nova dreifi líka þáttum Samstöðvarinnar til sinna viðskiptavina, en þessi fyrirtæki hafa ekki brugðist eins vel við og Síminn,“ segir Gunnar Smári. „Við getum því ekki annað en bent fólki á að skipta yfir á Símann ef það vill horfa á Samstöðina heima í stofu. Fólk á að gera kröfu til fjarskiptafyrirtækja að þau sinni því að dreifa mikilvægri íslenskri samfélagsumræðu.·

Þættir Samstöðvarinnar eru sendur út á 89,1 á fm á stór-höfuðborgarsvæðinu, en hægt er að ná þeim útvarpssendingum á Spilarnum, sem er á netinu á spilarinn.is en er líka app sem má hlaða niður á símann og hlusta á Samstöðina og aðrar íslenskar útvarpsstöðvar hvar sem er í heiminum. Þættirnir eru nr. 5 á fjarstýringunni hjá viðskiptavinum Símans, þeir eru sendir út á síðum Samstöðvarinnar á Facebook og á youtube, eru aðgengilegir á samstodin.is og á öllum hlaðvarpsveitum, bæði undir nafni Samstöðvarinnar og einstakra þátta.

„Samstöðin byrjaði á samfélagsmiðlum en til lengri tíma er ekki hægt að treysta á þá, enda eru þeir í eigu auðkýfinga sem í reynd standa gegn og trufla eðlilega umræðu,“ segir Gunnar Smári. „Við höfum oft lent í því að efni frá okkur fær ekki dreifingu eða augljóslega er vísvitandi dregið úr henni. Það var því lykilatriði fyrir okkur að komast í hefðbundnari dreifingu, í gegnum útvarp og sjónvarp.“

Samstöðinni er haldið uppi af áskrifendum, sem fjölgar jafn og þétt. Þau sem vilja styðja Samstöðina geta skráð sig fyrir áskrift hér: Áskrift. Vegna reglna um ríkisstyrki til einkarekinna fjölmiðla mun Samstöðin ekki fá styrk til jafns við aðra fyrr en í fyrsta lagi 2025, mögulega ekki fyrr en 2026. Kerfið styður þannig ekki nýsköpun og fjölbreytni, ekki mest vaxandi fjölmiðilinn, heldur fyrst og fremst eldri fjölmiðla og mest þá miðla sem eru í eigu auðfólks.

„Það er í raun magnað að Samstöðin skuli geta vaxið og dafnað við þessar aðstæður. Miðað við umfang ritstjórnar í dag ætti Samstöðin að fá um 15 m.kr. í árlegan styrk til að njóta jafnræðis á við aðra fjölmiðla,“ segir Gunnar Smári. „Og þá gætum við veitt ört stækkandi hlustendahópi enn betri þjónustu.“

Á Samstöðinni eru margir umræðuþættir um samfélagið, veröldina og mannskepnuna. Samstöðin er opinn vettvangur. Þar eru þættir unnir af ritstjórn, af áhugafólki en líka af hagsmunasamtökum svo sem Afstöðu – félagi fanga og Leigjendasamtökunum. „Þau sem hafa áhuga að nota dreifikerfi Samstöðvarinnar eða stúdíó til að búa til nýja þætti geta haft sambandi,“ segir Gunnar Smári. „Samstöðin er tilraunastöð og til í nánast hvað sem er.“

Myndin er hluti af herferð Samstöðvarinnar þar sem fólk bendir á mikilvægi hennar, hér er það Vigdís Grímsdóttir rithöfundur. Áskrifendur eru nú yfir 1100 og fjölgar jafnt og þétt.

Við þurfum á þér að halda

Þú getur tekið þátt í að byggja upp öflugum fjölmiðli.

Samstöðin er í eigu lesenda, áhorfenda og áheyrenda. Með því að gerast áskrifandi getur þú orðið félagi í Alþýðufélaginu og þar með eigandi að Samstöðinni.

Áskrifendur borga fyrir það efni sem þeir nota en tryggja í leiðinni að aðrir geti notið þess. Þetta er því ekki eigingjörn áskrift heldur rausnarleg og samfélagslega ábyrg.

Samstöðin byrjaði sem umræðuþættir á Facebook en er nú orðinn að fréttavef, útvarps- og hlaðvarpsþáttum, skoðanapistlum og sjónvarpsdagskrá.

Við trúum að Samstöðin skipti máli fyrir samfélagið, að það sé þörf fyrir róttæka umræðu um málefni sem snerta fólk út frá sjónarhóli og hagsmunum almennings.

Ef þú ert sama sinnis skaltu endilega gerast áskrifandi að Samstöðinni og þar með einn af eigendum hennar.

Þitt framlag skiptir máli.

Ég vil styrkja Samstöðina arrow_forward

Rauða borðið
í beinni
Rauða borðið, 24. maí